1.1 C
Selfoss

Ekki eins erfitt og fólk heldur

Vinsælast

Þann 1. desember 2017 opnuðu hjónin Linda Rós Jóhannesdóttir og Gylfi Sigurjónsson íþróttavöruverslunina Studio Sport við Austurveg á Selfossi. Það styttist í að verslunin eigi tveggja ára afmæli. Linda Rós var spurð hvernig það hafi komið til að þau fóru út í þennan rekstur.

„Það var snögg ákvörðun hjá okkur að opna íþróttavöruverslun. Við ætluðum að auka við úrval á íþróttavörum hér á Árborgarsvæðinu. Við byrjuðum frekar rólega, vildum aðeins kanna hvað fólkið vantaði og það vildi. Margt af því sem við erum með í búðinni núna byrjuðum við ekki með. Við áttuðum okkur á að það var eftirspurn eftir því. Við byrjuðum á helsta fatnaði en erum búin að auka töluvert í stuðningsvörum og ákveðnum heilsuvörum eins og fæðubótarefnum, lóðum öllu slíku,“ segir Linda Rós.

Hún segir að Árborg sé mjög íþróttalega miðað sveitarfélag og öflugt sem slíkt og að það sé líka mikill áhugi fyrir því að versla í heimabyggð. Það hefur m.a. leitt til þess að þau hafa verið að þjónusta íþróttafélögin á staðnum. „Við byrjuðum fljótlega þar og ætlum að halda því áfram. Við erum líka með mikið af vörum fyrir hlaupara og crossfit. Það er mjög mikil crossfit stemning í Hveragerði og í Árborg.“

Linda Rós var spurð hvernig sé að setja á stofn fyrirtæki og hefja rekstur á Selfossi. „Það er kannski ekki eins erfitt og fólk heldur. Það gera þetta samt ekkert allir. Þetta er fyrst og fremst vinna. En ef maður hefur áhuga fyrir því og gaman af því þá upplifir maður ekkert eins og maður hafi mikið að gera. Búðin okkar átti aldrei að vera bara verslun heldur ákveðin upplifun. Fyrirlestrarnir sem við höfum verið með undirstrika það. Það þarf samt pínulitla hörku til að opna verslun. Ég viðurkenni það alveg. Því meira sem maður vinnur sjálfur því betur gengur þetta.“

Fólk sem hefur komið í verslunina hjá Lindu Rós og Gylfa sér að hún hefur vaxið hægt og rólega frá því hún opnaði fyrst. Linda Rós segir að þau séu komin með töluvert meira vöruúrval. „Hvað framtíðina varðar þá ætlum við að vera með fyrirlestur í haust eins og við gerðum í fyrra. Svo ætlum við bara að halda áfram að þjónusta viðskiptavini okkar hér í Árborg og í kring og reyna að átta okkur á því hvað við getum gert meira,“ segir Linda Rós.

Nýjar fréttir