2.3 C
Selfoss
Home Fréttir Ávarp til aldraðra og almennings

Ávarp til aldraðra og almennings

0
Ávarp til aldraðra og almennings
Þórður Tómasson.

Hér skal litið til baka um langan veg. „Minningar á ég margar/sem milda og hugga,“ segir þjóðskáldið. Eyjafjöll æsku minnar eru í sviðsljósi, þéttsetin, fögur byggð, sem í aldanna rás hafði fært fram þúsundir manna. Yfir sviðinu hvíldi andi og blær aldagamallar þjóðmenningar, sem nú er illu heilli farin forgörðum. Önnur, ný, aðfengin hefur hvarvetna tekið heima. Heita mátti að á hverju byggðu bóli væri aldrað fólk sem ég gat sótt til þekkingu varðandi gamla lífshætti og forn fræði. Byggðahverfið mitt, Holtshverfi, var búið 8 býlum, 9 ef Varmahlíð er með talin, raunar með réttu. Íbúar voru nær 90, nú, 2019 um 15, mikil og döpur blóðtaka. Samfélagið var yfirleitt gott, menn fylgdust að í störfum til fjalls og fjöru, einnig til sjávar. Bændurnir gerðu út fiskibát úr Holtsvörum, smöluðu saman til fjalls, mokuðu Holtsós út í uppistöðu, studdu hver annan með ráðum og dáð, skiptust á heimsóknum, sátu saman, ræddu landsins gagn og liðna tíð. Húsfreyjur höfðu sama háttinn á, gengu í heimsókn til granna, prjónandi milli bæja og var fylgt spölkorn úr hlaði er heimsókn lauk. Mörg umræðan snerist um kýrnar í fjósi og hvert gagn þær gæfu. Væri eitt heimili í þurru húsi þá fóru mjólkurgjafir milli bæja. Stæði einn bóndinn í byggingu þá voru hendur nágranna réttar fram til hjálpar. Hverfingar litu á prestinn og prestsfrúna í Holti líkt og föður og móður. Ef eitthvað bjátaði á var einatt haldið heim að Holti. Sumir prestanna höfðu og læknishendur.

Á helgum dögum streymdu svo Hverfingar, aldnir og ungir, til kirkju sinnar upp að Ásólfsskála og söfnuðu sálarforða. Blær friðsældar og samhjálpar var yfir öllu mannlífi. Ég stend í óbættri þakkarskuld við allt hið góða fólk sem varðaði veg minn og gaf mér góðan hlut í þeirri menningu er það hafði að erfðum hlotið. Gamla Holtshverfi var æskuskjólið.

Aðgangur minn að öldruðu fólki var mér guðs gjöf. Ég fæddist inn í það hlutverk að festa fræði þess á blöð og bækur og gefa þar öðrum hlutdeild. Það er nú gleði mín er sól sígur að sævi. Aldrei get ég fullþakkað það forsjóninni að hafa fengið að alast upp með gömlu fólki, að hafa í æsku nærst við þá aldagömlu menningu sem það varðveitti og lét mér ljúflega í té. Hæst ber þar Arnlaugu Tómasdóttur í Vallnatúni. Hún var fædd 1860 og ég kominn vel til vits og ára er hún dó 1944. Hún gaf mér efni í væna bók, ættarsögu sína er út kom 1969. Henni voru tiltækar sagnir af forföður hennar, Oddi Bárðarsyni bónda á Miðskála og í Moldnúpi frá byrjun 18. aldar. Ég sé hann líkt og ljóslifandi fyrir mér í brúðkaupsveislu Nikulásar Magnússonar sýslumanns og Rannveigar Þorsteinsdóttur í Holti um 1730, stikandi stórum fram og aftur utan við veislutjaldið, storkandi brúðguma með síendurteknu: „Illa fór hún Rannveig mín í hundana.“

Í frásögnum Arnlaugar lifir margt merkisfólk Eyjafjalla sem ella væri í dag aðeins nöfnin tóm. Af Laugu, eins og mér var tamast að nefna hana, lærði ég líka að þessar löngu liðnu kynslóðir manna bjuggu ekki einar að landi. Dularverur áttu sér hæli í hömrum, klettum og hólum. Þuríður Einarsdóttir móðir hennar saknaði góðra granna, þar sem huldufólkið var, er hún flutti frá Hellnahóli niður að Vallnatúni 1875. Ég sakna Laugu, þessarar gömlu, góðu konu „meðan lífsæð er í mér heit.“

Önnur sagnakona mín, Þuríður Jónsdóttir ljósmóðir í Hvammi (1852–1942), sá yfir mannlíf af sjónarhóli sannrar lífsvisku og kvaddi veröld níræð með óförlað minni. Hún sagði mér að sér hefði aukist andlegt flug með árunum og það duldist engum sem af henni höfðu kynni. Sagnir hennar náðu til 18. aldar. Hún fræddi mig um margt, þó sem ekkert miðað við það sem hún tók með sér í gröfina.

Ég minnist einnar gamallar konu, Helgu Pétursdóttur á Miðgrund (1862–1955) er bætti í sagnasjóð. Hún sagði eitt sinn: „Ég átti barn að aldri austur á Rauðafelli tvo útskorna trafalára. Þeir urðu að engu. Mikið vildi ég að þeir væru nú komnir í hendurnar á þér.“ Helga sagði mér söguna af umskiftingnum Gingigoggi í Hörðuskála undir Eyjafjöllum. Færa átti hann til skírnar niðri í Eyvindarhólum. Svo bar þó til að barnið var rétt andartak eitt inni í baðstofu. Í frambæ heyrðust þá orðaskifti huldukonunnar móður þess við það: „Hvert á að ríða, Gingigoggur minn?“ Svar: „Upp að skíra í annað sinn.“

Ógleymanlegur er mér sómamaðurinn Magnús Magnússon í Lambhúshóli (f. 1864), vinur minn og frændi. Ég nam af honum vísu sem færði mig að aldamótunum 1700 og örnefnið Þorgeirsvarir sem færði mig sögulega séð aftur til landnámsaldar. Hann arfleiddi mig að bókum sínum. Sagnakonan Herborg Guðmundsdóttir frá Grímsstöðum í Landeyjum (f. 1882) var mér líkt og ímynd völvu frá fornöld. Fræði hennar færði ég á blöð og segulband, sem allir eiga nú aðgang að í Árnastofnun. Hún flutti mér þulu með hrynjandi ævafornrar framsagnarlistar.

Ættfræði og mannfræði voru að hávegum höfð hjá mörgum af hinni gömlu kynslóð. Ég minnist þess er hin góða og göfga föðursystir mín, Margrét Þórðardóttir á Leirum kom í árlega heimsókn og næturdvöl. Saman sátu þau, hún og faðir minn, og ræddu mannlíf. Þá heyrðist stundum hjá Margréti: „Það er skylt okkur, Tumi, það er af Skógaættinni.“ Mér skildist þá að það væri ætt öðrum fremri. Ég eignaðist orgel 1941. Mér er það hugstæð minning, er ég sat við það, með Margréti við hlið mér og við sungum saman af samhug „Hver sem ljúfan guð lætur ráða/með glöðu trausti fyrr og síð.“ Margrét átti í ríkum mæli mildi og kærleika og gerði sér í engu mannamun. Hún sagði mér brot úr sögu ættar okkar allt til 17. aldar. Hún dó 1947.

Afi minn og amma, Þórður Tómasson og Guðrún Tómasdóttir, bjuggu lengi rausnarbúi á Rauðafelli. Afi var mikill aðdráttamaður, formaður við Fjallasand og í Vestmannaeyjum, eftirsóttur skipasmiður. Þau hjón áttu 16 börn. Fjögur dóu í frumbernsku, tvö ólust upp á menningarheimilinu í Varmahlíð, Tómas faðir minn og Sigríður í Moldnúpi. Hvíti dauðinn, berklar, tóku mikinn skatt. Þrjú börnin dóu uppkomin á Rauðafelli, fjögur uppkomin dóu í fjarlægð. Tveir synir fluttu til Ameríku. Afi dó 1911, saddur lífdaga eins og sagt var. Amma fluttist andlega niðurbrotin að Varmahlíð. Þar endurheimti hún andlegt þrek og átti þar góða elli. Ég naut þeirrar hamingju að hljóta blessun hennar. Hún dó í Varmahlíð 1927, 84 ára að aldri.

Hugstæðar eru mér kvöldvökur æskuára. Vinna við tóskap, vefnað, hrosshár sat í fyrirrúmi. Ungur brýndi ég raust við að lesa hátt af bók undir vökuvinnu. Við bar að rímur væru kveðnar. Það er líkt og mér ómi enn í eyrum Jóhannesarríma og Einbúaríma frá rökkurstund í Vallnatúni og kveðið utanbókar af föður mínum og næturgestum, Jói Bjarna frá Vík í Mýrdal og konu hans, Sigurveig Vigfúsdóttur. Hverri vöku lauk með signingu og bæn og því að gefa sig guði á vald. Í morgunsárið var sjálfsagt, er út var komið „undir blæ himins blíðan“ eða strangan eftir atvikum að snúa sér móti austri og signa sig til blessunar önn dagsins.

Söngur var yndi foreldra minna. Móðir mín létti sér oft önn dagsins í söng. Af þeim man ég lög og ljóð, veraldleg og andleg. Öll fegurð þeirra var almenningseign, nú í fullu útfjari, að ekki sé meira sagt.

Messusöngurinn í gömlu Skálakirkju um og fyrir 1930 er mér í ljúfu minni, hún fjölskipuð í hverri messu. Ég sé fyrir mér skírnarföður minn, sr. Jakob Ó. Lárusson í Holti, alskrýddan fyrir altari, horfandi fram að fólki, syngjandi sálma fullum og fögrum rómi. Konur og karlar leiddu af styrk sönginn í kór. Oft bar þar upp yfir fagra bassarödd vinar míns, Árna Ingvarssonar bónda og kennara á Miðskála. Organisti var Einar Sigurðsson í Varmahlíð, frændi minn og fræðari. Á rausnarheimili hans og Ingibjargar Bjarnadóttur lærði ég að leika á hljóðfæri. Hún söng kvenna best og á heimili þeirra áttu margir eftirminnilegar söngstundir. Gamla kirkjan á Skála var full af helgi í hverri messu. Ekki að gleyma kirkjukaffinu hjá húsbændum á Skála og glaðlegri samræðu kirkjugesta.

Mannfæð og ný menning hafa kollvarpað ýmsu í sveitum sem að er mikil eftirsjá. Þar hef ég margs að sakna. Ég leiddi kirkjusöng í um 40 ár, fyrst í Ásólfsskála, svo í Eyvindarhólum, með hinum fögru lögum og sálmum sem kirkjan hefur síðan afrækt til mikilla muna sér og söfnuði til meins. Samvinna mín við sr. Sigurð Einarsson og sr. Halldór Gunnarsson var með ágætum. Þeir völdu alltaf sálminn sem átti við guðspjall dagsins en létu mig að öðru um sálmaval. Þá var oft sunginn sálmur sr. Matthíasar Jochumssonar, sálmur einna mestrar andagiftar í sálmabók: „Í gegnum lífsins æðar allar/fer ástargeisli drottinn þinn.“ Hann liggur nú í láginni. Hér er arfur sem kirkjan mátti síst missa.

Um 1950 voru þrír stórir kirkjukórar í starfi undir Eyjafjöllum og um 20 manns í hverjum, söngæfingar vikulega að vetri. Þar hefur orðið dapurlegt hrun. Í dag auglýsir prestur messur í Fjallakirkjum: „Félagar úr kirkjukór Eyfellinga syngja.“ Hann er ekki til, söngur aldrei æfður, um 6 konur sjá því borgið að hægt er að messa. Þannig horfir víða við í söng- og kirkjumenningu sveitanna.

Enginn hér inni á öldruðu fólki eins mikið upp að unna og ég. Til þess hef ég sótt jafnt forn fræði og forna muni og hvarvetna mætt velvild og skilningi á því hlutverki sem mér var af forsjón falið. Í dag er ég allra karla elstur og fagna því sem áunnist hefur í starfi. Ungum var mér kennt að þakka fyrir mig. Þetta ávarp er viðleitni í þá átt. Ég óska hinni góðu stofnun Kirkjuhvoli allra heilla í ómetanlegu starfi fyrir eldri kynslóð og þakka samverustund.

Ávarp flutt á aðstandendadegi í Kirkjuhvoli 2. júní 2019.

Þórður Tómasson, fyrrverandi safnvörður í Skógum.