-3.3 C
Selfoss

Fimm formenn mættu á aðalfund sauðfjárbænda í Rangárþingi

Vinsælast

Félag Sauðfjárbænda í Rangárvallasýslu er 34 ára á þessu ári. Félagið sem var stofnað 1985 er með starfssvæði í Rangárvallasýslunni allri. Það heldur utan um störf sauðfjárbænda í sýslunni, kemur að sýningu á degi sauðkindarinnar á haustin, sendir fulltrúa á aðalfundi Landssamtaka Sauðfjárbænda og Búnaðarsambands Suðurlands, ásamt fleiri verkefnum.

Félagið er öflugt og hefur verið rekið með miklum ágætum alveg frá upphafi. Fyrsti formaður þess var Sigurður Sigurjónsson frá Ytri-Skógum. Hann gegndi formennsku í þrjú ár, frá 1985 til 1988 þegar Kristinn Guðnason í Árbæjarhjáleigu tók við formannssætinu, en hann var formaður í fjögur ár. Árið 1992 tók Baldur Björnsson á Fitjamýri við formennsku og sinnti henni í tvö ár, en þá tók Ragnar Lárusson í Stóra-Dal við keflinu til næstu fimm ára, þegar Baldur tók við því aftur og stýrði nú félaginu í sex ár. Þeir skiptu aftur um stöðu félagarnir árið 2005 þegar Ragnar gerðist formaður á ný og nú í þrjú ár. Árið 2008 tók Erlendur Ingvarsson í Skarði í Landssveit við formannsstarfinu og leiddi félagið í ellefu ár, þar til nú í síðustu viku að félagið hélt aðalfund sinn og hann lét af formennsku. Reglur félagsins kveða á um að hver einstaklingur megi einungis sitja tólf ár samfellt í stjórn og Erlendur hafði lokið því tímabili. Kosið var í nýja stjórn og skipti hún með sér verkum á staðnum og var ákveðið að reynsluboltinn Ragnar Lárusson í Stóra-Dal yrði aftur formaður.

Allir þessir mætu menn eru áhugasamir bændur, ötulir og virkir félagsmenn á sínu svæði og hafa gegnt mörgum trúnaðarstörfum fyrir félagið. Það var því ekki tilviljun að þeir voru allir saman komnir á aðalfundi félagsins þann 20. mars síðastliðinn. Ákveðið var að skella í létta myndatöku og stilltu þeir sér upp fyrir framan linsurnar. Fylgir sú mynd hér með.

Nýjar fréttir