11.1 C
Selfoss

Tónaferðalag með Söngsveit Hveragerðis

Vinsælast

Söngsveit Hveragerðis býður þér í ferðalag. Ímyndaðu þér að þú sitjir í sætinu þínu á tónleikum og hlustir á hvern hljóm. 

Þú svífur yfir firði landins, sérð fuglana fljúga, alla liti regnbogans speglast á haffletinum. Alls staðar eru ástfangin pör. Vorilmurinn leynir sér ekki.

Allt í einu ertu komin út fyrir landsteinana þar sem mikil gleði ræður ríkjum. Það klingir í glösum og allir eru brosandi og hlæjandi. Þú ferðast fram og aftur í tíma á vængjum tónlistarinnar. Hvað er betra?

Söngsveit Hveragerðis býður upp á þessa veislu á vortónleikum sínum fimmtudagskvöldið 9. maí kl. 20 í Hveragerðiskirkju.

Eins og lesa má  á milli línanna hér að ofan er lagavalið fjölbreytt.

Íslenskar og erlendar dægurperlur og söngleikjalög. Allir ættu að fá eitthvað við sitt hæfi.

Meðleikur á píanó er í höndum Esterar Ólafsdóttur. Einnig mun Örlygur Benediktsson spila með okkur í nokkrum lögum á saxófón og klarinett. Kórstjórnin er svo í höndum Margrétar Stefánsdóttur.

Aðgangseyrir er 3.900 kr. og viljum við taka fram að það er enginn posi en hægt verður að leggja inn á reikning kórsins.

Eftir tónleika bjóðum við tónleikagestum  kaffisopa og kleinur.

Allir hjartanlega velkomnir og við hlökkum til að eiga með ykkur ánægjulega stund í sumarbyrjun.

Söngsveit Hveragerðis

Nýjar fréttir