11.7 C
Selfoss
Home Fréttir Umhverfis Suðurland

Umhverfis Suðurland

0
Umhverfis Suðurland

Í kjölfar umræðunnar um plastlausan september er gott að rifja upp og huga að því hvers vegna takmörkun plastnotkunar og endurvinnsla plasts er svo mikilvæg. Plast er unnið úr olíu og er mjög orkufrekt í framleiðslu. Hringrás plasts er einnig stórt vandamál því plast brotnar ekki niður í náttúrunni eins og við þekkjum t.d. með matvæli sem verða að jarðvegi. Plast eyðist ekki sem þýðir að allt það plast sem framleitt hefur verið er enn í formi plasts um allan heim.

Plast sem er flokkað er hægt að endurvinna í annað plast en það plast sem ekki er endurunnið safnast upp á urðunarstöðum eða í náttúrunni. Þar brotnar plastið hægt niður í smærri einingar sem kallað er örplast og veldur skaða um ókomna tíð. Plast í jarðvegi og vatni dregur til sín ýmis mengurnarefni og hefur mikil áhrif á lífríkið. Sameinuðu þjóðirnar telja að magn plasts í hafinu verði meira en fiskar árið 2050 sem þýðir að plast á greiða leið í fæðukeðju mannsins og gæti endað á matardiskum okkar.

Á vefsíðunni umhverfissudurland.is má fræðast meira um skaðsemi plasts og lausnir sem allir geta nýtt sér. Öll sveitarfélög á Suðurlandi taka við plasti í flokkun.

Mynd:

Plastlaus September

Mynd: Vefsíðan Umhverfis Suðurland.