1.1 C
Selfoss
Home Fréttir Borgar sig ekki að flytja of þungan farm

Borgar sig ekki að flytja of þungan farm

0
Borgar sig ekki að flytja of þungan farm

Lögreglan á Suðurlandi kærði tvo ökumenn í liðinni viku fyrir að flytja of þungan farm, annar var með allt að 10% yfir leyfðri þyngd en hinn allt að 20% yfir leyfðri þyngd. Sektarflokkum þessara mála er skipt með þessum hætti þannig að lægsti flokkurinn er að 10% næst 11 til 20% og svo 21 til 30% en þeir sem fara yfir þá þyngd sæta ákæru fyrir brot sín. Háar sektir eru við þessum brotum enda vex tjón á vegi í veldishlutfalli við þá þyngd sem ökutæki flytur.

Alls voru 40 ökumenn kærðir fyrir að aka of hratt í liðinni viku í umdæmi lögreglustjórans á Suðurlandi í liðinni viku. Af þeim eru 36 erlendir ferðamenn. Brotin eru flest á Suðurlandsvegi, þar af 16 í nágreini Víkur og 7 í Öræfum en einnig á veginum um Lyngdalsheiði og á Biskupstungnabraut.

Sex eru grunaðir um að hafa ekið undir áhrifum áfengis. Í einu tilvikanna voru tveir handteknir eftir að hafa ekið bifreið sinni á vegrið við veginn yfir Sámsstaðamúla í Þjórsárdal og fest hana þar. Ekki urðu slys á fólki við þetta. Þá voru tveir handteknir grunaðir um að hafa ekið bifreiðum sínum undir áhrifum fíkniefna.

Lögregla, björgunarsveitir og þyrla LHG voru kallaðar til s.l. laugardag þegar rjúpnaveiðimaður missti meðvitund, vegna bráðra veikinda, þar sem hann var við veiðar skammt norðan við Krakatinda. Sonur mannsins var með honum og hafði samband við Neyðarlínu og hóf endurlífgunartilraunir sem áhöfn þyrlu hélt áfram þegar þeir komu á staðinn en þær reyndust árangurslausar. Maðurinn var úrskurðaður látinn á vettvangi.

Úr dagbók lögreglunnar á Suðurlandi.