2.8 C
Selfoss

500 manna skátaþorp á Selfossi

Vinsælast

Innan fárra daga mun stærsta skátamót Íslandssögunnar, World Scout Moot, verða sett. Á mótið, sem er ætlað skátum á aldrinum 18 til 25 ára, koma skátar úr öllum heimshornum. Auk þeirra kemur fjölmennt lið erlendra starfsmanna sem aðstoða við framkvæmd mótsins. Starfsmennirnir eru allir skátar eldri en 25 ára.

Mótið verður sótt af u.þ.b. 5.000 skátum frá yfir 100 löndum. Um 450 Ástralir, 360 Svisslendingar og 300 Brasilíumenn mæta til leiks. Lang stærsti hópurinn kemur þó frá Bretlandi eða um 650 manns. Um 100 íslenskir skátar verða þátttakendur á mótinu. Yfir 300 íslenskir skátar hafa sinnt undirbúningi og skipulagningu mótsins frá árinu 2013 og vinna að því að gera upplifun þátttakenda ógleymanlega.

Mótið verður sett í Laugardal í Reykjavík en síðan dreifast þátttakendur á 11 staði og dvelja þar við leik og störf í fjóra daga áður en hópurinn sameinast á Úlfljótsvatni. Selfoss er einmitt einn þessara staða. Skátarnir munu setja upp tjaldbúð á tjaldsvæðinu við Suðurhóla og mynda þar 500 manna þorp tímabundið. Reikna má með að bæjarbúar verði þessara nýju íbúa varir með ýmsu móti. Meirihluti skátanna hefur t.d. ákveðið að ganga á Ingólfsfjall og verður því margt um manninn í fjallinu þessa daga sem skátarnir dvelja hér. Eins er gert ráð fyrir að fjöldi skáta sæki sundhöllina heim eða verði á annan hátt áberandi í bænum. Hluti af skátalífi er að rétta hjálparhönd. Á þessum hluta skátamótsins mun hver skáti leggja hálfan vinnudag til samfélagsins og hefur Árborg skipulagt verkefni fyrir þá s.s. stígagerð, hreinsunarverkefni og málningavinnu.

Íbúar skátaþorpsins á Selfossi ætla svo að bjóða öllum bæjarbúum til skátaskemmtunar í bæjargarðinum við Sigtún föstudaginn 28. júlí kl. 20 og verða þar alþjóðaleg skemmtiatriði í boði.

Fleiri slík þorp verða víðsvegar um Suðurland; í Hveragerði, í Vestmannaeyjum, á Heimalandi undir Eyjafjöllum, í Skaftafelli, Þingvöllum og Hólaskjóli. Þann 29. sameinast svo hópurinn á Úlfljótsvatni og verður þar til 2. ágúst.

Random Image

Nýjar fréttir