1.1 C
Selfoss
Home Fréttir Ábyrgur rekstur skiptir alla máli

Ábyrgur rekstur skiptir alla máli

0
Ábyrgur rekstur skiptir alla máli
Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri Hveragerðis.

Ársreikningur 2016 sýnir að fjárhagur Hveragerðisbæjar er í traustum skorðum. Slíkt hefur reyndar verið raunin undanfarin ár en samfelldur hagnaður hefur verið af rekstri samstæðu A og B hluta frá árinu 2012. Ytri aðstæður hafa verið sveitarfélögum hagfelldar að undanförnu en einnig hefur aðhald og árvekni í rekstrinum reynst nauðsyn til að svo jákvæð niðurstaða náist. Mikilvægi þess að halda stöðugleika í efnahagslegu umhverfi sveitarfélaganna er aldrei of oft ítrekað en lág verðbólga er forsenda þess að rekstur sé í jafnvægi. Jákvæð rekstrarniðurstaða er nauðsynleg til að gera fjárfestingar og verkefni sem í farvatninu eru betur möguleg.

Nýr leikskóli í smíðum
Nú er hafin stærsta framkvæmd kjörtímabilsins, en byggingu 6 deilda leikskóla við Þelamörk lýkur á haustmánuðum. Með byggingu leikskólans er hugsað til framtíðar en mikil ásókn er í búsetu í Hveragerði og fyrirséð að í bæjarfélaginu mun fjölga umfram landsmeðaltal á næstu árum. Því er mikilvægt að hafa skýra sýn til lengri tíma varðandi uppbyggingu innviða sem nauðsynlegir munu reynast til að taka við þeim íbúum sem hér vilja búa. Slík sýn er fyrir hendi og með áframhaldandi styrkri stjórn fjármála bæjarfélagsins mun uppbygging til framtíðar ganga vel.

Veltufé frá rekstri 270 mkr eða 11% af tekjum
Ársreikningur 2016 sýnir sterka afkomu Hveragerðisbæjar bæði sveitarsjóðs og samstæðu(A og B hluta). Það endurspeglast í því að hjá samstæðu er veltufé frá rekstri jákvætt um 270,2 mkr eða sem nemur tæplega 11% af heildartekjum bæjarins. Rekstrarniðurstaða fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) er jákvæð um 294 mkr eða sem nemur um 12% af heildartekjum samstæðu.

Skuldahlutfallið er 105%
Sem hlutfall af heildartekjum bæjarins nema skuldir í árslok 2016 105 % sem er 45 prósentustigum undir því skuldaþaki sem ný sveitarstjórnarlög hafa fyrirskipað. Rekstrarniðurstaða sveitarsjóðs er jákvæð um 55,9 mkr.

Langtímaskuldir samstæðu (A og B hluta) að viðbættri leiguskuldinni vegna Sunnumerkur 2 nema 1.811 mkr. og hafa hækkað um 109 mkr á árinu. Lífeyrisskuldbinding er 514 mkr. Samtals gerir þetta 2.326 mkr eða 937 þúsund pr. íbúa. Það er ljóst að sveitarfélagið er vel í stakk búið til að standa við skuldbindingar sínar og fjárhagslega fært um frekari fjárfestingar. Þennan árangur ber að þakka markvissu aðhaldi og traustu utanumhaldi fjármuna bæjarbúa undanfarin ár.

Fjárfest fyrir 332 mkr
Fjárfestingar á árinu 2016 námu 331,7 mkr. á móti fjárfestingu ársins 2015 er nam 134,9 mkr. Helstu fjárfestingar voru fólgnar í upphafsstigum nýs leikskóla við Þelamörk, fráveituframkvæmdum, nýrri borholu vatnsveitu, framkvæmdum við sundlaug, gatnagerð, kaup á jörðinni Álfafelli og gróðurhúsum að Þelamörk 29, endurbótum á Mjólkurbúi og öðrum smærri framkvæmdir. Tekin ný langtímalán voru 243 mkr en afborganir langtímalána námu 156 mkr.

Stærstu einstöku útgjaldaliðir Hveragerðisbæjar eru fræðslu- og uppeldismál sem taka til sín 45,46% af skatttekjum, félagsþjónustan 11% og æskulýðs- og íþróttamál 9,6%.

Það hefur verið sérstaklega ánægjulegt að fylgjast með góðu og ábyrgðarfullu starfi forstöðumanna bæjarins og starfsmanna sem allir bera ábyrgð á að fjárhagsáætlanir einstakra stofnana standist. Á fundi bæjarstjórnar færði meirihluti D-listans þeim öllum bestu þakkir fyrir framlag þeirra til ábyrgs reksturs bæjarins.

 

Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri Hveragerðisbæjar.