11.7 C
Selfoss
Home Fréttir Jóhanna Rut með framhaldsprófstónleika í fiðluleik

Jóhanna Rut með framhaldsprófstónleika í fiðluleik

0
Jóhanna Rut með framhaldsprófstónleika í fiðluleik
Jóhanna Rut Gunnarsdóttir.
Jóhanna Rut Gunnarsdóttir.

Jóhanna Rut Gunnarsdóttir lýkur framhaldsprófi í fiðluleik (lokaprófi frá tónlistarskólanum) með opinberum tónleikum í Hveragerðiskirkju á morgun þriðjudaginn 18. apríl kl. 18:00. Á dagskrá eru verk eftir Bach, Mozart, Brahms, Bartók og Copland. Meðleikari á píanó er Miklós Dalmay.

Jóhanna Rut hóf Suzuki-fiðlunám sex ára gömul hjá Guðmundi Pálssyni. Eftir grunnpróf tók María Weiss við sem kennari og hefur hún kennt henni síðan. Jóhanna hefur verið virkur þátttakandi í strengjasveit Tónlistarskóla Árnesinga allan námstímann auk þátttöku í minni kammerhópum og verkefnum. Samhliða fiðlunáminu stundaði Jóhanna píanónám frá 12 ára aldri og lauk 4. stigi í píanóleik síðastliðið vor.

Jóhanna Rut hefur leikið víða utan skólans s.s. með Sinfóníuhljómsveit tónlistarskólanna, Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og tekið þátt í Tónlistarhátíð unga fólksins.

Í fyrra sumar tók Jóhanna Rut þátt í námskeiði í Hörpu sem heitir „Harpa International Music Academy“. Þar fékk hún tækifæri til að sækja tíma hjá erlendum kennurum og leika í kammersveit og hljómsveit með nemendum frá ýmsum löndum.

Aðgangur að tónleikunum er ókeypis og allir hjartanlega velkomnir.