10 C
Selfoss
Home Fréttir Hef náð góðum tökum á eftirréttinum

Hef náð góðum tökum á eftirréttinum

0
Hef náð góðum tökum á eftirréttinum
Ívar Grétarsson.

var Grétarsson – Sunnlenski matgæðingurinn: „Ég vil byrja á því að þakka Sigurði fyrir traustið. Þeir sem þekkja mig vita að ég er ekki frægur fyrir mikla tilburði í eldamennsku en vita hins vegar að ég stend mig afar vel í að borða afrakstur eldamennsku annarra. Eftirrétturinn sem ég býð upp á er aftur á móti eitthvað sem ég hef náð góðum tökum á og ef takast á afar vel til mæli ég með að vera „örlítið“ við skál þegar rétturinn er útbúinn. Það hefur reynst mér vel.“

Aðalrétturinn sem ég er með kemur frá móður minni og hefur konan mín náð að mastera þann rétt. Hann er borinn fram með hrísgrjónum og heimagerðu hvítlauks-naan-brauði. Fyrir þá sem sakna grænfóðursins með matnum vil ég benda á að það er hvítlaukur í kjúklingaréttinum.
Hvítlauks-naan-brauðin eru best nýbökuð og er því gott að byrja að útbúa mangókjúklinginn þegar brauðin eru að hefast í seinna skiptið.

Mangókjúklingur
5-6 kjúklingabringur
Salt og pipar eftir smekk
4 hvítlauksrif
1 peli rjómi
½ krukka Mango chutney. Mæli með frá Sharwood
1 tsk. karrý

Kjúklingurinn skorinn í litla bita, kryddaður með salti og pipar og steiktur á pönnu.
Þegar kjúklingurinn er alveg að verða steiktur er allt sett út á pönnuna og hrært saman. Látið malla í ca. 15 mín.

1 poki basmati hrísgrjón

Hvítlauks-naan-brauð
600 gr. hveiti
Eitt bréf þurrger
240 ml volgt vatn
½ dl sykur
3 msk. mjólk
1 hrært egg
2 tsk. salt
½ dl olía
100 gr. smjör
6 hvítlauksrif

Gerið er leyst upp í volgu vatninu og látið standa í ca. 10 mín. Hræra saman gerblöndunni, sykri, mjólk, eggi, salti, olíu og hveiti. Hnoðað vel. Deigið sett í olíusmurða skál og látið hefast í klukkustund undir röku viskustykki. Hnoðið deigið aðeins aftur og búið til kúlur úr því á stærð við golfkúlur. Látið hefast í 30 mín. á olíusmurðri plötu undir röku viskustykki. Þegar kjúklingarétturinn er tilbúinn bræðið þá smjörið í potti og kremjið hvítlauk út í. Látið malla á lágum hita, passið að brenna ekki. Gott að henda grjónunum í pott líka á þessum tímapunkti. Hitið pönnu á nokkuð háum hita. Vinnið eina kúlu í höndunum, togið deigið á milli handanna í hring. Passið að fletja ekki of þunnt. Setjið smá olíu á pönnu og setjið deigið á. Hver hlið þarf ca. 2-3 mín. Brauðið á að vera loftkennt og létt brúnað. Þegar hvert brauð er tilbúið er það penslað létt með hvítlaukssmjörinu.
Þegar öll brauðin hafa verið bökuð má veislan hefjast.

Eftirréttur
Einn marengsbotn, hvítur.
Einn peli rjómi, þeyttur.
Slatti jarðarber, bláber og vínber.
4 stk. kókosbollur.
Eitt Mars súkkulaði.
Tvo stóra Þrista.

Marengsbotninn mulinn niður. Berin, Marsið og Þristarnir skorin í hæfilega stóra bita. Kókosbollurnar rifnar niður í litla bita. Öllu blandað saman ásamt rjómanum í stóra skál og hrært vel í. Setja gumsið í mót og inn í frysti í ca. 2 klst.

Verði ykkur að góðu.

Að lokum vil ég skora á félaga minn og Rangæinginn Pétur Gunnarsson til að vera næsti matgæðingur.