10 C
Selfoss
Home Fréttir Sætar kartöflur og súrar sítrónur

Sætar kartöflur og súrar sítrónur

0
Sætar kartöflur og súrar sítrónur
Guðbjörg Grímsdóttir.

Samfélag er skemmtilegt púsl. Þegar púsl er lagt er myndin oftast fyrirfram ákveðin og áskorunin snýst um að finna hverjum bita sinn stað. Þó eru sum púsl þannig að þegar lagt er af stað er ekki vitað hver heildarmyndin er en með lagni, útsjónarsemi, þolinmæði, áhuga og vinnusemi tekur púslið á sig mynd og að lokum verður heildarmyndin skýr og það er frábær tilfinning.

Ég hef búið í þessu góða sveitarfélagi í 14 ár og séð margt breytast og þróast sem er gott. Hér leynast ýmis tækifæri og sum þeirra eru ónotuð en bíða þolinmóð eftir að fá að blómstra. Hér er hægt að sjá fyrir sér háskólasetur, ráðstefnu- og þekkingarsetur, huga betur að fjölskyldum með nægum leikskólaplássum og lækkun leikskólagjalda, búa öldruðum ævikvöld í sinni heimabyggð og ekki má gleyma að styrkleikum strandarinnar verði sýnd vegsemd og virðing. Mikilvægt er að áður en hver biti er settur á sinn stað er hugsað um íbúa sveitarfélagsins umfram allt. Við viljum byggja samfélag sem þjónar öllum hópum vel – það er alveg sama hvort okkur finnast sætar kartöflur góðar eða súrar sítrónur – allir eiga að blómstra.

Höfum í huga að samfélag Árborgar er skemmtileg samsetning af þremur byggðakjörnum sem þarf að þjónusta. Hugsum til framtíðar og í langtímalausnum og vöndum öll vinnubrögð.

Ég er tilbúin að púsla.

 

Guðbjörg Grímsdóttir, skipar 4. sæti á lista Vinstri grænna í Árborg.