7.8 C
Selfoss

Landvernd setur fram stefnu um virkjun vindorku á Íslandi

Vinsælast

Engin stefna hefur verið mörkuð um vindorkuvirkjanir á Íslandi og því réðst Landvernd í það verkefni að semja stefnu sem byggist á náttúruverndarsjónarmiðum með almannahagsmuni að leiðarljósi. Vonast er til að framkvæmdaaðilar og sveitarfélög geti nýtt sér þessa stefnumörkun til að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif slíkra framkvæmda og til að koma í veg fyrir að ráðist verði í byggingu vindorkuvirkjana á svæðum þar sem miklar líkur eru á að þær hafi veruleg neikvæð áhrif á viðkvæma náttúru landsins. Einnig vonast samtökin til að stefnan marki upphafið af almennri umræðu um málefnið hér á landi.

Þann 23. febrúar sl. afhenti Landvernd Halldóri Halldórssyni, formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga, nýtt stefnumótunar- og leiðbeiningarrit sem ber nafnið Virkjun vindorku á Íslandi. Öll sveitarfélög landsins hafa einnig fengið ritið sent.

Í landsskipulagi liggur ekki fyrir stefna um vindorkuvirkjanir og sveitarfélög hafa almennt ekki markað sér stefnu um þær í svæðis-, aðal- eða deiliskipulagi. Sveitarstjórnir geta því ekki byggt á eigin stefnumörkun þegar fyrirspurn berst um möguleika á að reisa vindorkuvirkjun. Takmörkuð fræðsla liggur fyrir af hálfu Skipulagsstofnunar fyrir sveitarstjórnir til að byggja á. Landvernd sér því ástæðu til að benda á nokkra þætti sem leggja þarf áherslu á í umfjöllun sveitarstjórna þegar fyrirspurn um byggingu vindorkuvirkjunar berst eða þegar vindorka er til umfjöllunar við gerð skipulagsáætlana. Gátlista fyrir sveitarstjórnir má nálgast í stefnumótunarritinu.

Mikilvægt er að vanda vel undirbúning og staðsetningu vindorkuvirkjana í ljósi þess að bygging þeirra og rekstur kann að hafa ýmis neikvæð áhrif á umhverfið, ekki síst á landslag og ásýnd lands. Vert er að huga að þessu frá upphafi m.a. með því að skilgreina svæði þar sem vindorkuvirkjanir og vindorkuver verði ekki reist. Brýnt er að fram fari almenn umræða um hvar komi til greina að staðsetja slík mannvirki og hvar þau eigi ekki heima.

Eftirfarandi eru helstu niðurstöður og áherslur Landverndar úr stefnumótunarritinu:

  • Landvernd telur þörf fyrir vindorkuvirkjanir ekki eins aðkallandi á Íslandi og víða annars staðar.
  • Landvernd hvetur stjórnvöld til að marka stefnu um nýtingu vindorku.
  • Landvernd hafnar vindorkuvirkjunum innan verðmætra náttúrusvæða.
  • Landvernd vill koma í veg fyrir að vindorkuvirkjanir skerði verðmætar landslagsheildir og ásýnd lands.
  • Landvernd telur sjálfsagt að vindorkuver falli undir lög um verndar- og orkunýtingaráætlun nr. 48/2011 (rammaáætlun).
  • Landvernd hvetur sveitarfélög til að marka langtímastefnu um vindorkuver í skipulagi, þar sem aðkoma almennings að ákvarðanatöku sé tryggð á fyrstu stigum ferlisins.

Það er von Landverndar að stjórnvöld geti nýtt sér leiðbeiningarnar sem samtökin setja fram í stefnumörkun sinni í orku- og umhverfismálum og að sveitarstjórnir geti nýtt þær við skipulagsgerð. Jafnframt beinir Landvernd því til hugsanlegra virkjunaraðila vindorku að skoða einungis kosti utan þeirra svæða sem samtökin leggja til að verði án vindorkuvirkjana. Áhersla er lögð á að almenningur hafi aðkomu að ákvörðunarferlinu og umræðu um hversu mikil þörf er á viðkomandi vindorkuvirkjun.

 

Nýjar fréttir