0 C
Selfoss
Home Fréttir Steinunn Sigurðardóttir á bókmenntakvöldi í Bókasafninu í Hveragerði

Steinunn Sigurðardóttir á bókmenntakvöldi í Bókasafninu í Hveragerði

0
Steinunn Sigurðardóttir á bókmenntakvöldi í Bókasafninu í Hveragerði
Steinunn Sigurðardóttir rithöfundur.

Miðvikudaginn 14. mars nk. verður bókmenntakvöld með Stenunni Sigurðardóttur á Bókasafninu í Hveragerði. Steinunn ein af okkar þekktari höfundum og hefur sterk tengsl við Suðurland, en hún er ættuð úr Grímsnesi og Fljótshverfi. Hún á sitt annað heimili á Selfossi, en býr annars í Strassborg.

Fyrsta verk Steinunnar, ljóðabókin Sífellur, kom út árið 1969. Einhver þekktasta skáldsaga hennar, innan lands og utan, er Tímaþjófurinn, sem kvikmynduð var í Frakklandi og sett upp í Þjóðleikhúsinu í fyrra með Nínu Dögg Filippusdóttur í hlutverki söguhetjunnar, Öldu Ívarsen.

Steinunn mun fjalla um tvær kvenhetjur og náttúrubörn úr sögum sínum, Heiðu úr Heiðu fjalldalabónda, sannsögunni sem varð metsölubók og kom út hjá Bjarti 2016, og svo Hörpu úr skáldsögunni Hjartastað sem kom út hjá Máli og menningu 1995 og 1998, og Steinunn hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir.

Dagskráin hefst kl. 20 og stendur í u.þ.b. klukkustund. Boðið verður upp á hressingu.