7.8 C
Selfoss
Home Fréttir Aukin þjónusta heimahjúkrunar í Árborg, Hveragerði og Ölfusi

Aukin þjónusta heimahjúkrunar í Árborg, Hveragerði og Ölfusi

0
Aukin þjónusta heimahjúkrunar í Árborg, Hveragerði og Ölfusi
Steinunn Birna Svavarsdóttir, hjúkrunardeildarstjóri heilsugæslunnar á Selfossi.

Í Árborg, Hveragerði og Ölfusi er að mestu sameiginleg þjónusta heimahjúkrunar. Um er að ræða þjónustu sjúkraliða alla virka daga og á kvöldin og um helgar. Þjónusta hjúkrunarfræðinga hefur ekki verið í boði undanfarin ár utan dagvinnutíma nema í völdum tilvikum. Með viðbótarfjármagni sem velferðaráðuneytið veitti Heilbrigðisstofnun Suðurlands, fyrr á árinu, til að efla heimahjúkrun hefur þjónusta hjúkrunarfræðinga utan dagvinnutíma verið bætt þannig að nú er kvöld- og helgarþjónusta á svæðinu.

Með aukinni heimahjúkrun er skjólstæðingum okkar sem þurfa á hjúkrunarmeðferð að halda auðveldað að dvelja lengur í heimahúsi. Hægt verður að veita einstaklingum með langt gengna langvinna sjúkdóma, óháð aldri, aukna þjónustu hjúkrunarfræðinga. Má þar nefna sem dæmi einstaklinga sem eru í erfiðum krabbameinslyfjameðferðum og þurfa þjónustu í kjölfar þess og aðra þá sem þurfa flókna hjúkrunarþjónustu vegna veikinda til skemmri eða lengri tíma.

Heimahjúkrun starfar í náinni í samvinnu við heimilislækna, félagsþjónustu og veitendur annarrar stoðþjónustu. Beiðni um heimahjúkrun getur komið frá einstaklingnum sjálfum, aðstandendum, sjúkrahúsum eða öðrum stofnunum.

Ákvörðun um að veita heimahjúkrun byggist á kerfisbundinni upplýsingasöfnun hjúkrunarfræðings. Áhersla er lögð á að meta hvort og hvernig heimahjúkrun muni bæta/styðja við heilbrigði einstaklingsins og fjölskyldu hans.

Heimahjúkrun er tímabundin þjónusta sem veitt er meðan þörf er á einstaklingshæfðri og faglegri hjúkrunarþjónustu. Þegar meðferðarmarkmiðum er náð og heilsufarsleg vandamál hafa verið leyst eða komið í viðunandi horf er gert ráð fyrir að viðkomandi útskrifist.

Heimahjúkrun býður ekki upp á þjónustu er felur í sér fasta viðveru, yfirsetu, heimilisstörf, persónulega aðstoð s.s. klæðnað eða útréttingar, slíkt kemur frá félagslegri heimaþjónustu sem er á vegum sveitarfélagsins.

Heimahjúkrun er án endurgjalds. Skjólstæðingi ber þó að greiða fyrir hjálpartæki, blóðprufur o.fl. samkvæmt reglum Sjúkratrygginga Íslands.

F.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands
Steinunn Birna Svavarsdóttir, hjúkrunardeildarstjóri heilsugæslunnar á Selfossi