2.3 C
Selfoss

Senn koma jólin – Jólaundirbúningur í Hveragerðisbæ

Vinsælast

Hið árlega jóladagatal Hvergerðinga, Jól í bæ, var borið út til bæjarbúa í lok vikunnar en þar eru upplýsingar um alla þá viðburði sem boðið verður upp á í kringum jólahátíðina. Starfsmenn áhaldahúss eru í óðaönn að setja upp jólaseríur og jólaljósin í bænum farin að ljóma. Jólahátíðin „Jól í bæ“ er samstarfsverkefni allra sem í bænum búa og leggjum við metnað í að gera bæinn okkar sem hátíðlegastan með jólaljósum og skreytingum.

Jól í bæ
Fyrsta sunnudag í aðventu, þann 3. desember, verða jólaljósin tendruð á stóra jólatrénu í Smágörðunum. Skátafélagið Strókur býður upp á heitt kakó í skátaheimilinu og munu jólasveinar úr Reykjafjalli fá bæjarleyfi hjá Grýlu og skólakór grunnskólans undir stjórn Dagnýjar Höllu syngja. Um kvöldið verður aðventukvöld í Hveragerðiskirkju.

Jólatónleikar með Sætabrauðsdrengjunum
Þann 26. nóvember kl. 17 verða jólatónleikar í Hveragerðiskirkju með Sætabrauðsdrengjunum, þeim Bergþóri Pálssyni, Gissuri Páli Gissurarsyni, Hlöðveri Sigurðssyni og Viðari Gunnarssyni, ásamt Halldóri Smárasyni, útsetjara og píanóleikara.

Þar verður hátíðarbragur og eftirvænting í loftinu, jólagæsahúð! Strákarnir eiga samt mjög erfitt með að bregða ekki á leik af og til. Sætabrauðsdrengirnir hafa haldið stórskemmtilega jólatónleika síðastu ár og gert víðreisn um landið með íslenskt dægurlagaprógramm sem hlaut frábærar viðtökur.

Jólagluggar
Undanfarin ár hafa fyrirtæki og stofnanir skreytt sérstaka dagatalsglugga og er opnaður einn gluggi á dag í desember fram að jólum. Hver gluggi er skreyttur með ákveðnu þema tengt jólum og er jólabók við hvern glugga sem útskýrir táknið. Fjölmargir hafa lagt leið sína um bæinn að skoða gluggana og tekið þátt í jólaratleiknum. Guðrún Tryggvadóttir hjá Náttúran.is er hugmyndasmiður jólabókanna og hafði hún veg og vanda að hönnun táknanna og textanum sem fylgja hverju tákni.

Fleiri viðburðir tengdir jólum verða kynntir síðar, sjá www.hveragerdi.is.

Eigið ánægjulegar stundir við undirbúning jólanna

Jóhanna M. Hjartardóttir, menningar- og frístundafulltrúi.

Nýjar fréttir