12.3 C
Selfoss

Sogið og líf sem þar leynist

Vinsælast

Laugardaginn 15. júní kl. 14:00 mun Gísli Már Gíslason skordýrafræðingur, fræða gestkomandi í Alviðru um heim skordýranna.

Skordýr eru fjölbreyttasti flokkur dýra á jörðinni og á Íslandi hefur skordýrum fjölgað undanfarin ár af ýmsum ástæðum. Sogið er vatnsmesta fljót landsins. Bæði í vatninu og við árbakkan er mikið líf.

Mæting á hlaðinu í Alviðru og svo verður farið að bökkum Sogsins. Gengið verður með bökkum fljótsins og teknir upp steinar úr vatninu við bakkana og skoðað smádýralíf á þeim, sem er aðallega rykmýslirfur og bitmýslirfur. Einnig eru þar vorflugnalirfur, og a.m.k. tvær aðrar ættir tvívængja, lækjarfluga og ránfluga.

Ofan vatns er hægt að háfa fullorðnar flugur þessara skordýra, sem og skordýr sem lifa allan sinn aldur á landi. Eftir skoðunaferðina verður boðið upp á kakó og kleinur í bóndabænum og samræður um mikilvægi skordýranna í lífríki Íslands.

Staðsetningu Alviðru má finna hér.

Í sumar stendur Alviðra fræðslusetur Landverndar fyrir öðrum skemmtilegum og fræðandi viðburðum. Dagskrá sumarsins er að finna hér.

Um Sogið orti þjóðskáldið Jónas Hallgrímsson:

Við Sogið sat eg í vindi,
sækaldri norðanátt,
og þótti þurrlega seta,
þar var af lifandi fátt.

En sólin reis hin sæla,
sveipaði skýjum frá;
upp komu allar skepnur
að una lífinu þá.

Og svo var margt af mýi
– mökk fyrir sólu ber –
að Þórður sortnaði sjálfur
og sópar framan úr sér.

Nýjar fréttir