3.4 C
Selfoss

Metskráning og þátttakendur frá 32 löndum

Vinsælast

Hengill Ultra fór fram um helgina í Hveragerði við krefjandi skilyrði. Mótshaldarar þurftu að breyta hlaupaleið lengstu hlaupanna vegna veðurs en á föstudag og vel yfir miðjan laugardag glímdu skipuleggjendur og þátttakendur við mikinn vind sem virtist á tímabili koma úr öllum áttum. Mótið gekk þó vonum framar og upp úr miðjum degi á laugardag brast á sumarveður í Hveragerði þar sem keppendur gerðu vel við sig í mat og drykk í blíðskaparveðri að keppni lokinni. Alls mætti 1.301 keppandi til leiks en í það heila voru 1.425 skráðir í mótið þetta árið sem er met skráning.

Ljósmynd: Hengill Ultra/Magnús Stefán Magnússon.

106 km úrslit

Íslendingurinn Friðrik Benediktsson sigraði 106 km hlaupið í Hengil en hann kom í mark rétt fyrir 9:00 á laugardagsmorgun á tímanum 14:36. Ester María Ólafs vann kvennaflokkinn. Í öðru sæti karla var Senan Oesch frá Swiss en svo komu þeir Hrólfur Vilhjálmsson og Egill Trausti Ómarsson saman í mark og deila með sér 3. og 4. sætinu. Hlaupið hófst klukkan 18:00 á föstudagskvöld, þegar 21 hlaupari hóf keppni en af þeim kláruðu 14 þátttakendur.

Ljósmynd: Hengill Ultra/Magnús Stefán Magnússon.

53 km úrslit

Grétar Örn Guðmundsson sigraði Hengil Ultra 53 km á tímanum 04:28. Í öðru sæti var spánski Chema Martínez, fyrrum Evrópumeistari í 10.000 metra hlaupi sem var sérstakur heiðursgestur mótsins og í þriðja sæti var Egill Gunnarson. Í kvennaflokki var það Sif Árnadóttir sem kom fyrst kvenna í mark á tímanum 05:16. Í öðru sæti var Helga Fabian frá Íslandi og í þriðja sæti var Noëmi Löw frá Sviss.

26 km úrslit

Ljósmynd: Hengill Ultra/Magnús Stefán Magnússon.

Búi Steinn Kárason sigraði 26 km Hengil á tímanum 1:46 og á eftir honum kom daninn Andreas Dam og í þriðja sæti var Atli Sveinbjörnsson. Anna Berglind Pálmadóttir kom fyrst kvenna í mark á tímanum 1:58, Steinunn Lilja Pétursdóttir varð í öðru sæti og í þriðja varð Hildur Aðalsteinsdóttir.

Alþjóðleg hlaupaveisla

Í ár tóku 153 erlendir hlauparar frá 32 mismunandi þjóðlöndum. Langflestir frá Bretlandi, Bandaríkjunum, Mexikó, Frakklandi og Danmörku. Hengill Ultra er sannkallað hlaupa festival og Hveragerði heimabær mótsins breytist í höfuðstað utanvegahlaupara þessa helgi. Allir gististaðir og frábæru veitingastaðirnir í Hveragerði taka fagnandi á móti gestum og fullt um að vera fyrir áhorfendur og fjölskyldur hlaupara á meðan hlaupið fer fram.

Hægt er er skoða öll úrslit og tíma allra á https://timataka.net/hengillultra2024/.

Nýjar fréttir