-7.1 C
Selfoss

Dásamleg 40 ár að baki

Vinsælast

„Og þetta er fyrsti sumardagurinn!,“ sagði Ingunn Guðmundsdóttir, eigandi Pylsuvagnsins,með bros á vör þegar blaðamaður Dagskrárinnar óskaði henni til hamingju með 40 ára afmælið, sem haldið var uppá með pompi og prakt í blíðskaparveðri síðastliðinn sunnudag.

Pylsuvagninn á Selfossi stofnaði Ingunn ásamt eiginmanni sínum við Ölfusárbrú þann 9. júní árið 1984, þá þriggja m2 vagn. Ári síðar var hann stækkaður upp í 7 m2 og árið 1988 varð fyrsta bílalúgan á Selfossi að veruleika, þegar vagninn var stækkaður upp í 14 m2 og um leið færður niður að Tryggvaskála, þar sem hann stóð í sjö ár, áður en hann var fluttur aftur á sinn stað árið 1995 og þá byggður nýr 22 m2 vagn frá grunni, sem hélst þangað til árið 2009, þegar hann var löngu búinn að sprengja allt utan af sér og var stækkaður upp í þá 86 fermetra sem hann telur í dag.

Pylsuvagninn stóð við Tryggvaskála frá 1988-1995. Ljósmynd: Pylsuvagninn.is.

Nú er þó komið að kaflaskilum hjá Ingunni og hefur hún ákveðið að selja vagninn og reksturinn og kemur það til með að skýrast á næstu vikum hver tekur við þessum farsæla rekstri. „Við erum búnar að hugsa þetta í tvö ár, en ég sagði við dóttur mína að mig langaði að halda upp á 40 ára afmælið og það er núna í dag, í þessu blíðskaparveðri,“ segir Ingunn.

„Þetta er hefur verið alveg dásamlegur tími, allar stelpurnar sem ég hef haft í vinnu hafa verið svo yndislegar, ég hef alltaf verið svo heppin með starfsfólk að það er engu lagi líkt. Við kennum þeim frá upphafi, göngum fyrstu vaktina með þeim og kennum þeim, svo taka vaktstjórarnir við og halda áfram kennslunni,“ bætir hún við.

Fjöldi fólks var samankominn á þessum bjarta sumardegi í tilefni afmælisins og fylgdust spennt með BMX bros leika lystir sínar á meðan þau gæddu sér á góðgæti úr Pylsuvagninum. Ljósmynd: DFS.is/HGL.

Aðspurð um leyndarmálið á bakvið frábært minni starfsfólks Pylsuvagnsins, segir Ingunn hlæjandi að þær séu allar með „límheila“, en bætir við að þetta komi með æfingunni. Er starfsfólk vagnsins þekkt fyrir að skrifa aldrei niður pantanir, en tekst nánast án undantekninga að skila þeim réttum í bílinn, sama hversu stór pöntunin er.

Ingunn segist sátt við árin sem hún á að baki. „Ég geng mjög sátt frá borði, nú fer ég bara að leika mér,“ segir hún kát að lokum.

Nýjar fréttir