7.3 C
Selfoss

Púlsinn, framtíðarlausn á vistvænum kælikerfum

Vinsælast

Púlsinn er nýtt sunnlenskt raf- og kæliþjónustufyrirtæki í eigu Birkis Guðna Guðnasonar, Bjarka Orrasonar og Kristins Jónssonar. Birkir, sem er fæddur og uppalinn Ólafsfirðingur en býr á Hofteig í landi Byggðarhorns við Votmúla, er vélfræðingur, vélvirkjameistari og rafvirki sem hefur m.a. starfað hjá Expert, Rafiðnaðarsambandinu, Fossraf, Johann Rönning og Frostmark. Bjarki er vélfræðingur sem er fæddur og uppalinn í Reykjavík og hefur m.a. sinnt vélstjórnarstarfi á skipum Björgunar og hjá Expert og Kristinn, fæddur og uppalinn á Selfossi er útskrifaður vélfræðingur, vélvirkjameistari og rafvirki sem hefur m.a. starfað hjá Expert og hjá framkvæmda- og veitusviði Árborgar.

Þremenningarnir kynntust þegar þeir störfuðu saman hjá Expert kælingu í um 8 ár og eru þeir allir með vottuð réttindi í að meðhöndla F-gas kælimiðla. Birkir og Kristinn eru með Meistarabréf í vélvirkjun og verða komnir með Meistarabréf í Rafvirkjun fyrir jól. „Við erum með um 10 ára reynslu á kæli og frystikerfum, höfum sett upp mikið af Co2 kæli- og frystikerfum t.d. hjá Nettó og Lýsi. Höfum einnig verið í uppsetningum á stærri kæli- og frystikerfum í eldhúsum og vöruhúsum,“ segja þeir í samtali við Dagskrána en Púlsinn hefur aðsetur á Selfossi og í Mosfellsbæ.

„Vanir að þvælast um allt land við vinnu“

Fyrirtækið Púlsinn ehf. var stofnað á Akureyri árið 1988 af Sæmundi Hrólfssyni Rafvirkjameistara, tengdaföður Birkis. Fyrirtækið var rekið um áraraðir á Akureyri en rekstur þess lá að mestu niðri um skeið. Eftir að Sæmundur lést eignaðist Birkir fyrirtækið. „Þegar við ákváðum að láta slag standa og hefja rekstur var eignarhaldinu skipt upp og erum við þrír allir jafnir hluthafar. Við erum tveir búsettir á Selfossi og gerum mest út þaðan. Sá þriðji er búsettur í Mosfellsbæ og gerir út frá Reykjavík. Starfssvæðið okkar má segja að sé Suðurland eins og það leggur sig, Vesturland og Suðurnes. Við erum vanir að þvælast um allt land við vinnu,“ segir Birkir kíminn.

„Við höfum allir starfað í þessum geira, við uppsetningu, viðgerðir og þjónustu á öllum stærðum og gerðum af kæli- og frystikerfum í 8 – 10 ár. Það má segja að stundin hafi runnið upp að við teljum okkur tilbúna til þess að hefja eigin rekstur á þeim grunni sem við höfum byggt, gott tengslanet við viðskiptavini og birgja, gríðarmikla þekkingu, reynslu og menntun,“ bætir Bjarki við.

Vistvænar lausnir

„Okkar markmið hjá Púlsinum er að hjálpa viðskiptavinum okkar að komast frá  F-Gas kælimiðlum, þar sem þeir eru ekki vistvæn lausn í kælikerfum og mikil skattlagning er á þeim kælimiðlum. Áherslan er að hjálpa okkar viðskiptavinum að finna lausnir og gefa ráð á framtíðarlausnum í kæli- og frystikerfum, skipta út gömlum kerfum sem eru komin til ára sinna yfir í vistvænni kæli- og frystikerfalausnir. Við horfum einnig á að þjónusta góðan hóp viðskiptavina í landbúnaði, ferðaþjónustu, veitingasölu, matvælaframleiðslu, sjávarútvegi og iðnaði. Við höfum verið að þjónusta fyrirtæki í þessum greinum í gegnum árin og ætlum okkur að halda því áfram hjá Púlsinum,“ segir Kristinn.

Aðspurðir um helstu styrkleika fyrirtækisins segir Birkir: „Þekking okkar og reynsla við þjónustu, viðhald og uppsetningar á öllum gerðum kæli- og frystikerfa fyrir verslanir og veitingastaði, mjólkurtanka fyrir bændur, bjórtanka fyrir bruggverksmiðjur, í raun allt frá minnstu kæli- og frystitækjum upp í stærstu kerfi fyrir hátækniiðnað. Ásamt því eru F-Gas kælimiðlar einna mest notaðir hér á landi og erum við hjá Púlsinum allir með vottun frá Umhverfisstofnun í meðhöndlun á þessum kælimiðlum. Fyrirtækið sjálft er á loka metrum að komast á lista hjá Umhverfisstofnun yfir vottuð fyrirtæki í meðhöndlun F-gas kælimiðla. Við höfum einnig verið mikið í rafmagni þá aðallega í stýringum og iðntölvum en þó líka alltaf eitthvað í almennu rafmagni.“

Þá segja þeir að í dag horfi stjórnvöld alltaf meira og meira í minnkun á innflutningi á vetnisflúorkolefni HFC-efna (F-Gas kælimiðla), til að minnka Co2 losun til framtíðar. „Okkar stefna hjá Púlsinum er að hjálpa viðskiptavinum okkar að finna lausnir á kæli- og frystikerfum í öllum stærðum og skipta yfir í vistvænni lausnir á kælimiðlum.“ Háir skattar hafa verið settir á alla F-Gas kælimiðla og bannað verður að þjónusta eða viðhalda viðkomandi kælibúnað með endurnýttum eða endurunnum efnum frá 1. janúar 2030. „Það má því segja að markmið okkar hjá Púlsinnum sé að horfa til framtíðar í samstarfi við okkar viðskiptavini að finna lausnir og áætlanir til að takmarka F-Gas kælimiðla og koma öllum í vistvænni kæli- og frystikerfi“ segir Birkir að lokum.

Nýjar fréttir