1.1 C
Selfoss

Árborg hlaut Nýsköpunarverðlaun hins opinbera

Vinsælast

Þrjú verkefni hlutu Nýsköpunarverðlaun hins opinbera árið 2024 sem veitt eru fyrir framúrskarandi árangur á sviði nýsköpunar í opinberri starfsemi.

Alls bárust vel á fjórða tug tilnefninga en dómnefnd skipuðu fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga og fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

Reykjavíkurborg og Vestmannaeyjabær hlutu sameiginlega viðurkenningu fyrir verkefni varðandi útboð og innleiðingu á velferðartæknilausn sem hefur gert heilbrigðis- og félagsþjónustuveitendum á velferðarsviði sveitarfélaganna kleift að stórefla upplýsingamiðlun sín á milli og hámarka skilvirkni við veitingu fjölbreyttrar þjónustu í heimahúsum. Þjónustunotendur hafa einnig öðlast betri yfirsýn á skipulagi sinnar þjónustu.

Sveitarfélagið Árborg hlaut sérstaka viðurkenningu fyrir framfaradrifinn metnað á sviði umbóta og stafrænnar þjónustu sveitarfélagsins. Í erfiðu árferði hefur Árborg lyft grettistaki í stafrænni umbreytingu með fjölbreyttum stafrænum umbótaverkefnum sem hafa skilað bættri yfirsýn stjórnenda á verkefnin og dregið úr álagi starfseminnar.

Stafræn málsmeðferð dánarbúa

Þá fengu Sýslumenn viðurkenningu fyrir brautryðjendastarf við sjálfvirknivæðingu opinberrar þjónustu, og sérstaklega stafræna málsmeðferð dánarbúa. Alls voru 92% útgefinna dánarvottorða í lok árs 2023 stafræn, en voru 26% í byrjun sama árs. Sýslumenn fá helstu lykilupplýsingar á borð við skattframtöl og ökutækjaeignir sjálfkrafa í ferlinu, aðstandendur geta fyllt allar yfirlýsingar og umsóknir út stafrænt, sem hefur gert umsóknarferlið einfaldara og fljótlegra.

Nýjar fréttir