2.8 C
Selfoss

Æfingarsund á Flateyri

Vinsælast

Merki Hrútavinafélagsins Örvars.

Það bar til þann 4. maí 2024, við Samkomuhúsið á Flateyri, að Verkalýðs-hljómsveitin Æfing var heiðruð með því að götu var gefið nafn hljómsveitarinnar Æfing.

Gatan fékk nafnið Æfingarsund, en þessa slóð var gengið að kveldi þess 27. desember 1968 er Æfing kom fram fyrsta sinni í lok fundar í Verkalýðsfélaginu Skildi. Þetta áður nafnlausa sund á merka sögu í mannlífi og menningu Flateyrar til áratuga; til bíóferða, ballferða og leið margra í sjoppuna við Ránargötu sem alltaf var opin til kl. 23:30.

Helsti sérfræðingur sögu þessa svæðis er Þorsteinn Jóhannsson, trésmiður á Flateyri og setti hann upp skiltið Æfingarsund þann 4. maí 2024, á afmælisdegi Árna Benediktssonar á Selfossi, hljómsveitarstjóra Æfingar. Siggi Björns, tónlistarmaður og  meðlimur Æfingar, tók við þessari heiðursgjörð fyrir hönd Æfingar-meðlima fyrr og nú. Með þessu er Æfing komin í hóp með hljómsveitinni Geislum á Akureyri, en þar er Geislagata nefnd þeim til heiðurs. Þetta er mjög merkilegt fyrir Ingólf R. Björnsson en hann var á sínum tíma í Geislum og svo í Æfingu.

Það var Hrútavinafélagið Örvar á Suðurlandi sem stóð að þessari heiðursgjörð til Hljómsveitarinnar Æfingar. Hrútavinafélagið varð til á hrútasýningu að Tóftum í Stokkseyrarhreppi hinum forna haustið 1999. Hljómsveitin Æfing mætti á þá hrútasýningu og sló í gegn að venju. Félagið er því 25 ára í ár og er því fagnað á ýmsan hátt þetta árið. Hrútavinafélagið er samafl aðfluttra Vestfirðinga og heimamanna á Suðurlandi og starfar að þjóðlegu mannlífi og menningararfleið til sjávar og sveita.

Guðfaðir Hrútavinafélagsins er Bjarkar Snorrason f.v. bóndi að Tóftum og heiðursforseti er Guðni Ágústsson frá Brúnastöðum og f.v. landbúnaðarráðherra til margra ára.

Æfingarmeðlimir, Vestfirðingar, Sunnlendingar og aðdáendur allir í veröld víðri, til hamingju með þessa verðskulduðu upphefð Æfingar.

Björn Ingi Bjarnason
Eyrarbakka,

Forseti Hrútavinafélagsins Örvars

Nýjar fréttir