6.7 C
Selfoss

Fjarðargljúfur friðlýst

Vinsælast

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku og loftslagsráðherra, hefur friðlýst Fjaðrárgljúfur.

Mörk hins friðlýsta svæðis ná yfir austurhluta gljúfursins og afmarkað svæði ofan gljúfranna austan megin. Það svæði er í eigu Hverabergs ehf. og er friðlýsingin unnin í góðu samstarfi við Hveraberg og sveitarfélagið Skaftárhrepp.

Vinna við friðlýsinguna hófst í framhaldi af tímamótasamningi sem umhverfis-, orku og loftslagsráðherra og Hveraberg skrifuðu undir í janúar 2024 og kveður á um samstarf um verndun Fjarðárgljúfurs og uppbyggingu innviða á svæðinu.

Fjaðrárgljúfur er um 1,5 km á lengd og mesta dýpt um 100 m. Gljúfrið er gott dæmi um virk ferli landmótunar sem hófst í lok síðustu ísaldar fyrir um 10.000 árum og er enn í gangi. Ofan við gljúfrið eru malarhjallar sem benda til þess að jökullón hafi myndast fyrir framan hörfandi jökul og vegna fyrirstöðu sem lá efst í núverandi gljúfri. Lónið hefur fyllst tiltölulega fljótt upp af framburði, en vatnsmiklar og aurugar jökulár áttu síðar auðvelt með að rjúfa sér farveg í undirliggjandi berggrunn úr móbergi. Innst í Fjaðrárgljúfri eru fossar og þó að Fjaðrá sé mun kraftminni en vatnsmiklu jökulárnar í lok ísaldar, þá er landmótun gljúfursins enn í gangi.

„Fjaðrárgljúfur er gríðarlega vinsæll ferðamannastaður og allt sem bendir til þess að ásókn ferðamanna á svæðið muni aukast á komandi misserum. Það er því mjög ánægjulegt að geta í samstarfi við landeigendur og Skaftárhrepp friðlýst svæðið og skapað því þá umgjörð sem nauðsynleg er til verndar náttúrunni á svæðinu og til móttöku ferðamanna,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku-, og loftslagsráðherra.

Vinsældir Fjaðrárgljúfurs eru miklar og hafa aukist mjög á síðari árum. Fjöldi þeirra sem sækja staðinn heim hefur jafnvel leitt til þess að loka hefur þurft svæðinu tímabundið vegna ágangs. Mikil þörf hefur því verið á uppbyggingu innviða til verndar náttúru og til að bæta öryggi þeirra sem fara um svæðið ásamt landvörslu til að fræða og upplýsa um náttúruvættið.

Nýjar fréttir