5.6 C
Selfoss

Skilti um Einar Jónsson afhjúpað við Öldu aldanna

Vinsælast

Í ár eru liðin 150 ár frá fæðingu Einars Jónssonar myndhöggvara. Einar var fæddur að Galtafelli í Hrunamannahreppi þann 11. maí árið 1874 og er hann einn þekktasti listamaður þjóðarinnar. Verkin hans eru fyrir löngu orðin landsfræg enda prýða þau marga áberandi staði í Reykjavík, svo dæmi sé tekið.

Hrunamenn buðu til samkomu af þessu tilefni sunnudaginn 12. maí og var ánægjulegt að sjá hversu margir mættu til að fræðast um listamanninn og til að eiga saman góða stund á hans heimaslóðum.

Fyrst voru erindi flutt í Hrepphólakirkju af Sigurði Jónssyni, bónda í Ásgerði og nágranna Einars, en hann fjallaði um ætt og uppruna Einars auk þess að segja viðstöddum frá kynnum sínum af listamanninum. Sigurður Trausti Traustason formaður stjórnar Listasafns Einars Jónsson, flutti erindi um listamanninn og verkin hans og að lokum fjallaði Pétur Ármannsson arkitekt um áhrif Einars á íslenska byggingalist auk þess sem ungmenni úr Flúðaskóla, Íris og Valgeir, fluttu tónlistaratriði.

Að lokinni stundinni í kirkjunni vitjuðu gestir leiðis þeirra hjóna Önnu og Einars í Hrepphólakirkjugarði áður en haldið var að Flúðum þar sem skilti um listamanninn var afhjúpað í miðbænum, við Öldu aldanna, höggmyndar Einars sem þar hefur staðið frá árinu 1977.

Að lokum þáðu gestir svo kaffi og með því í boði Hrunamannahrepps. Meðfylgjandi myndir voru teknar á samkomunni.

 

Nýjar fréttir