Sveitarfélagið Árborg og Mótokrossdeild Umf. Selfoss hafa gert samkomulag um að æfinga- og keppnisaðstaða deildarinnar færist á nýtt svæði í Bolaöldu þegar nýr Suðurlandsvegur fer yfir núverandi aðstöðu í Hellislandi.
Frá árinu 2001 hefur verið æfinga- og keppnisaðstaða fyrir mótokross í hluta af Hellislandi, oft nefnd Hrísmýri á Selfossi. Frá þeim tíma hefur aðstaðan byggst upp að mestu í sjálfboðavinnu félagsmanna í góðu samstarfi við sveitarfélagið.
Í samningum um aðstöðuna hefur þó verið kveðið á um að svæðið væri víkjandi þegar kæmi að lagningu nýs Suðurlandsvegar að nýrri brú yfir Ölfusá, sem væri fyrirhugað, en ekki vitað hvenær yrði af. Því gæti svæðið ekki orðið þarna til allrar framtíðar. Mótokrossdeild Umf. Selfoss hefur þó á þessum árum byggt upp frábæra aðstöðu og varð svæðið eitt af betri mótokrossvæðum landsins.
Það hefur legið fyrir síðustu tíu árin að bygging nýrrar brúar yfir Ölfusá væri væntanleg og því hófst samtal milli deildarinnar og sveitarfélagins árið 2013 um að finna nýja framtíðaraðstöðu innan sveitarfélagsins. Þrátt fyrir að ýmsir möguleikar hafi verið skoðaðir og margar hugmyndir komið fram hefur ekkert svæði fundist sem ljóst er að hægt væri að byggja upp til framtíðar í ört stækkandi sveitarfélagi. Það hefur því verið sameiginlegur skilningur fulltrúa deildarinnar og sveitarfélagsins að horfa þurfi til allra möguleika til að starfsemin geti haldið áfram.
Í þessari stöðu er stjórn Mótokrossdeildar Selfoss, ekki margir valkostir í boði. Leggja niður starfsemina, semja við aðra klúbba um aðstöðu eða finna annað svæði utan sveitarfélagsins.
Stjórn deildarinnar hefur fengið afnot af aðstöðu hjá Vélhjólaíþróttaklúbbnum í Bolaöldu. Þar fær deildin eigin braut til afnota ásamt afnotum að öllu svæðinu. Allt svo til, tilbúið til að hefja starfið af krafti strax, eftir flutninga á aðstöðuhúsi og eignum deildarinnar af núverandi svæði á Selfossi, í Bolaöldu.
Mikill ávinningur er af þessum flutningum, í þeirri stöðu sem deildin er, en æfingatímabilið lengist til muna og skipulagðar æfingar verða frá miðjum maí, fram í miðjan september. Ásamt því að fá tilbúna braut, fæst aðgangur að beygjubraut og fleiru á svæðinu. Loksins verður hægt að bjóða uppá enduro námskeið og aðgangur fæst að stærsta endurosvæði landsins.
Hægt verður að samnýta þjálfara og þjálfun, lengja hjólatímabilið og vonandi í framtíðinni farið að hjóla innanhúss. En komið er leyfi fyrir að byggja 6.000 fm æfingaaðstöðu, innanhúss á svæðinu.
Þrátt fyrir þetta allt er Mótokrossdeild Umf. Selfoss og Sveitarfélagið Árborg sammála um að leita áfram að framtíðarstað fyrir starfsemina í sveitarfélaginu, sem gæti komi til við skipulagsbreytingar, sameiningar sveitarfélaga eða af öðrum ástæðum.
En það sem skiptir öllu máli er að starfsemi deildarinnar er tryggð og hægt að halda áfram því þróttmikla starfi sem deildin hefur staðið fyrir og hefur skilað mörgum afreksmönnum á landsvísu. UMFS