6.1 C
Selfoss

„Viðbrögðin voru alveg stórkostleg, það er ekkert flóknara en það“

Vinsælast

Lúðrasveit Þorlákshafnar fagnaði 40 ára starfsafmæli sínu með stórtónleikum í Íþróttamiðstöð Þorlákshafnar síðasta laugardag. „Við höfðum sæti fyrir rúmlega 500 gesti og seldum upp! Þegar upp var staðið komust færri að en vildu. Það var stútfullt upp í rjáfur í húsinu og þegar mest lét voru 100 manns á sviðinu að auki, svo í heildina voru yfir 600 manns á viðburðinum,“ segir Ágústa Ragnarsdóttir, formaður lúðrasveitar Þorlákshafnar í samtali við Dagskrána.

Eins og á „Black Friday“ í Bandaríkjunum

Ágústa segir andrúmsloftið á tónleikunum vægast sagt hafa verið magnað. „Húsið opnaði hálftíma fyrir tónleika og þó nokkru áður var komin röð langt út úr húsi. Við göntuðumst með að þegar hleypt var inn í salinn var þetta eins og sést hefur í sjónvarpi frá Bandaríkjunum á „Black Friday“ útsölu, fólk hljóp við fót til að tryggja sér óskasæti og meira en 20 mínútum fyrir tónleika var salurinn orðinn fullur og fólk beið með eftirvæntingu. Og það má segja að þetta rafmagnaða andrúmsloft hafi haldið alla þrjá tímana sem veislan stóð yfir, stórkoslegar viðtökur.“

Þá segir hún ómögulegt að gera upp á milli atriða. „En til að gefa lesendum smá innsýn inn í nokkur augnablik þá má til dæmis nefna augnablikið þegar Karlakór Selfoss stóð óvænt upp, þá ennþá staddur úti í sal, og byrjaði að syngja viðlagið í Minning um mann sem Vigdís var að flytja, það magnaði upp spennuna sem leiddi svo í tvær sunnlenskar sleggjur, Árnesþing og Brenni þið vitar. Jónas Sig náði með sínum einstaka hætti að snerta við öllum viðstöddum með fallegum hjartnæmum kynningum þar sem hann rifjaði upp gamla tíma í Þorlákshöfn. Þá var líka einstakur flutningur Vigdísar Hafliða ásamt Sigríði Kjartansdóttur og Tómasi Jónssyni á Lífsbókinni hennar Bergþóru Árnadóttur og síðast en ekki síst þá ætlaði þakið af kofanum í síðasta lagi lúðrasveitarinnar og Skítamórals, svokallaðri Skímósyrpu.“

Karlakór Selfoss fór á kostum og um skeið voru um 100 manns á sviði í gæsahúðarflutningi. Ljósmynd: Sunna Ben.

Allt hjá öllum stóð eins og stafur á bók

Ágústa segir skipulag hafa gengið mjög vel, lúðrasveitin hafi verið eins og vel smurð vél að venju. „En svo höfðum við óvenju marga samstarfsaðila í þetta sinn, bæði sýnilega og á bak við tjöldin, og ég verð að hrósa þeim öllum sem einum fyrir frábært starf, allt hjá öllum stóð eins og stafur á bók. Það léttir virkilega flókið verk. Auðvitað koma alltaf einhverjar hindranir í svona umfangsmiklu skipulagi, jafnvel eitthvað sem maður hefði aldrei getað ímyndað sér fyrirfram þó hugmyndaflugið sé mikið og þá er að takast á við það… og það tókst. Viðbrögin voru alveg stórkostleg, það er ekkert flóknara en það. Maður hefði haldi að fólk væri orðið þreytt eftir um þrjár klukkustundir en það var ekki að sjá og heyra á viðbrögðunum á meðan tónleikunum varði sem og í lok þeirra.“

Þakið ætlaði að rifna af húsinu þegar Skítamórall mætti á svæðið. Ljósmynd: Sunna Ben..

Aldrei fengið önnur eins viðbrögð

Aðspurð um viðbrögð tónleikagesta eftir tónleikana segir hún þau hafa verið virkilega góð. „Þegar þessu er svarað eru tveir sólarhringar liðnir frá lokum tónleikanna og ég held ég hafi aldrei fengið jafn mikið af jákvæðum, sterkum og tilfinningaríkum viðbrögðum, bæði á netinu en ekki síður í raunheimi við einhverju sem lúðrasveitin hefur gert og er það þó heldur betur hellingur. Það veitir ánægju og gerir svona mikla vinnu þess virði.“

Þá segir hún svona verkefni alltaf þjappa meðlimum lúðrasveitarinnar enn meira saman. „Lúðrasveitin er sérstakt fyrirbæri. Það er kannski klisjulegt að tala um eina stóra fjölskyldu en hún er það það, fullt af fólki sem er gríðar samstíga þó það geti haft ólíkar skoðanir á ákveðnum hlutum. Það er ótrúlegur kærleikur innan sveitarinnar.“

Vigdís Hafliðadóttir fór algjörlega á kostum í öllum þeim hlutverkum sem hún var í. Ljósmynd: Sunna Ben.

Framkoma Vigdísar einstök

Aðspurð um sérstaka gesti eða uppákomur sem voru hluti af tónleikunum nefnir Ágústa sérstaklega Vigdísi Hafliðadóttur, söngkonu, texta- og lagahöfund sem einnig var kynnir og hafði mjög stórt hlutverk. „Fyrir utan að syngja í hinu „hefðbundna“ prógrammi sá hún um að fara yfir sunnlenska tónlistarsögu á mjög svo frumlegan og skapandi hátt í tónum og tali ásamt Tómasi Jónssyni. Hvernig hún náði að flétta og tengja saman alla þessa ólíku þætti á fagmaglegan, fallegan og fyndinn máta var einstakt og gaf tónleikunum ákveðið heildaryfirbragð. Og svo verð ég auðvitað að nefna að Lúðrasveitin varð þess heiðurs aðnjótandi að fá forseta Íslands, Hr. Guðna Th. Jóhannesson, í þessa veislu og veitti hann m.a. nýjum heiðursfélögum LÞ viðurkenningar gripi fyrir störf í þágu sveitarinnar sl. 40 ár eða allt frá stofnun hennar.“

Forseti Íslands, Hr. Guðni Th. Jóhannesson, sótti tónleikana heim og tók þátt, ásamt formanni LÞ í að vígja inn nýja heiðursfélaga. Frá vinstri: Ágústa Ragnarsdóttir form. LÞ, Róbert A. Darling, Gestur Áskelsson, SIgríður Kjartansdóttir, Hermenn G. Jónsson og Guðni Th. Jóhannesson. Ljósmynd: Sunna Ben.

En hvað tekur við ? „Nú verður einhver pása í stóra samhenginu, búin að vera mikil keyrsla sl. vikur og mánuði. Vissulega eru alltaf einhverjar fastar uppákomur s.s. hátíðarhöld tengd 17. júní og bæjarhátíðinni auk annara viðburða sem poppa upp. Við settum upp örlitla sögusýningu á tónleikastaðnum sem spannaði þessi 40 starfsár lúðrasveitarinnar og mögulega ætlum við að taka hana aðeins lengra, það eru hugmyndir að gerjast. Eins get ég næstum fullyrt að það hafi skapast nýr samstarfsflötur á tónleikunum sem verður tekinn lengra án þess að ég ljóstri einhverju upp. En lúðrasveitin er alltaf með háleitar hugsjónir.“

 

Nýjar fréttir