7.3 C
Selfoss

Bergrós, best í heimi

Vinsælast

Það er óhætt að segja að 17 ára Selfyssingurinn og CrossFit stjarnan Bergrós Björnsdóttir hafi byrjað árið af krafti, en Bergrós, ásamt hinni bandarísku Kendall Gilmore, situr í fyrsta sæti af rúmlega 1600 keppendum í flokki 16-17 ára eftir hörkukeppni í Open, fyrstu af þremur undankeppnum fyrir heimsleikana í CrossFit 2024, sem lauk 18. mars sl. Er Bergrós þar með orðin fyrsta íslenska stelpan til að vinna Open í aldursflokki. Hvergerðingurinn Björgvin Karl endaði í 22. sæti í sínum flokki á sama móti.

„Open er sérstök keppni. Þetta er eina keppnin þar sem þú ert að keppa á móti öllum (crossfitturum) í heiminum á sama tíma. Stefnan er aldrei sett á að vinna Open því það er svo langt í heimsleikana og þú vilt ná þínum toppi á réttum tíma. Það er því extra sætt að vinna Open, bæði ertu að keppa á móti öllum í heimi og þú ert frekar langt frá þínu besta formi,“ segir Eggert Ólafsson, þjálfari Bergrósar, í færslu á Instagram þar sem hann deilir árangri Bergrósar.

„Það kemur án efa mörgum á óvart að Bergrós hafi unnið þessa keppni þar sem æfingarnar í ár hentuðu alls ekki hennar styrkleika. Þetta sýnir að hún er heldur betur búin að vinna í sínum veikleikum undanfarna mánuði en hún heldur ótrauð áfram og tekur þátt í Quarter Finals, sem er önnur keppnin fyrir heimsleikana. Sú keppni byrjar þann 17. apríl og fer fram á netinu. Það verður mjög spennandi keppni því að úr henni ræðst hverjir komast áfram í síðustu undankeppnina fyrir heimsleikana,“ segir hin óhjákvæmilega stolta móðir Bergrósar, Berglind Hafsteinsdóttir, í samtali við Dagskrána.

Myndavélar, dekur og hörð samkeppni á Spáni

Það stefnir allt í að 2024 verði hennar stærsta ár hingað til en Bergrós er nú stödd á Mallorca á Spáni þar sem hún tekur þátt í The Crown, CrossFit móti þar sem 12 af bestu CrossFit unglingum heims, 6 strákar og 6 stelpur, keppast um krúnuna. Bergrós er ein þriggja íslendinga á mótinu sem hefst í dag og lýkur á sunnudag. „Aðaláherslan er á að allir unglingarnir fái sem bestu mögulegu upplifunina og þar verður í raun dekrað dálítið við þau. Þau búa öll saman í kastala og eru með einkakokk sem eldar ofan í þau. Kastalinn er umvafinn fallegri náttúru þar sem þau munu svo keppa á ströndinni, hjóla í fjöllunum og synda í sjónum svo eitthvað sé nefnt. Einnig verður gerð heimildarmynd um keppnina þannig að þau þurfa að venjast því að hafa myndavélina á hælum sér,“ segir Berglind.

Ætti að fljúga inn á heimsleikana

SemiFinals, Evrópumótið í CrossFit í fullorðinsflokki, verður svo haldið í Frakklandi 17.-19. maí, og er það draumur okkar konu að vinna sér inn rétt til þess að keppa þar. Bergrós hefur svo sannarlega sýnt og sannað að hún á vel heima á meðal þeirra bestu í heimi þar sem hún keppti í þeim flokk á stóru alþjóðlegu móti, Wodapaloza, sem fram fór í Miami Í janúar síðastliðnum, með góðum árangri.

Frá Íslandsmótinu í október 2023 þar sem Bergrós tryggði sér fyrsta sæti í fullorðinsflokki. Ljósmynd: Aðsend.

Þar með er þó ekki öll sagan sögð um komandi keppnir á árinu hjá Bergrós þar sem hún vann sér sl. haust inn rétt á Heimsmeistaramót í Ólympískum lyftingum 2024 sem fram fer í Perú lok maí og er nú skráð í þá keppni. Bergrós hefur þó hvorki verið að æfa né keppa í ólympískum lyftingum þar sem CrossFit á hug hennar allan. Síðasta stórmót hennar var heimsmeistaramót sem fram fór í Mexíkó fyrir tveim árum en þar endaði hún í 8. sæti U-17 ára. Þetta mun verða hennar síðasta ár í flokki U-17 ára og verður því gríðarlega spennandi að sjá hvað hún gerir á þessu móti.

Í lok ágúst verða svo heimsleikarnir í CrossFit sem fram fara í Bandaríkjunum en fyrst þarf Bergrós að komast í gegnum allar undankeppnirnar sem lofa heldur betur góðu þar sem hún situr sem fyrr segir í 1. sæti eftir fyrstu keppnina, sem reyndi helst á veikleika hennar, og ætti samkvæmt því að fljúga inn á heimsleikana.

Í ár komast 30 stelpur í heiminum að í flokk 16-17 ára, en undanfarin ár hafa aðeins efstu 10 komist að og því mikil breyting þar á, en þess má geta að Bergrós endaði í þriðja sæti í sínum aldursflokki á heimsleikunum í fyrra.

Engar greiðslur fyrir verðlaunasæti

CrossFit er ekki undir neinu félagi og lendir því allur kostnaður fyrir flug, gistingu og uppihald fyrir hana og þjálfarann hennar, á henni sjálfri og foreldrum, en að sjálfsögðu fylgir foreldri fast á eftir henni með tilheyrandi kostnaði. Ólíkt keppendum í fullorðinsflokki fá keppendur í unglingaflokki engar greiðslur fyrir verðlaunasæti.

„Okkur langar að bjóða fyrirtækjum að styðja og styrkja þessa mögnuðu stelpu okkar sem lætur ekkert stoppa sig í sínum draumum. Við munum prenta logo viðkomandi fyrirtækja á peysu sem Bergrós mun vera í á milli staða og greina, á öllum mótum hérlendis sem og erlendis og jafnvel eitthvað þess á milli,“ segir Berglind að lokum.

Fyrir þau sem vilja ná sér í þrælgóða auglýsingu á sínu fyrirtæki er hægt að hafa samband við Berglindi á bolsturlist@gmail.com,en frjáls framlög eru einnig kærkomin. Kt: 060207-2160 RN: 0511-14-013564.

Nýjar fréttir