0.2 C
Selfoss

Eflum tengsl heimila og leikskóla

Vinsælast

Dagana 6. febrúar til 19. mars 2024 var haldið hagnýtt íslenskunámskeið fyrir foreldra barna með fjölmenningarlegan bakgrunn á leikskólaaldri í sveitarfélaginu Árborg. Um var að ræða þróunarverkefni hjá Fjölskyldusviði Árborgar styrkt af Þróunarsjóði innflytjendamála. Svipuð námskeið voru haldin árið 2021 og svo veturinn 2022-23 fyrir foreldra barna á grunnskólaaldri og gengu mjög vel. Það var okkur hvatning til að þróa einnig námskeið á leikskólastigi.

Markmið verkefnisins var að bjóða foreldrum leikskólabarna með fjölmenningarlegan bakgrunn upp á íslenskunámskeið þar sem þau fá tækifæri til að kynnast helstu hugtökum og efla orðaforða tengdu leikskólastarfi. Á skólaárinu 2023-2024 eru í sveitarfélaginu Árborg u.þ.b. 120 leikskólanemar með fjölmenningarlegan bakgrunn sem samtals tala u.þ.b. 30 tungumál. Rannsóknir sýna að tungumálaörðuleikar foreldra geta hindrað þátttöku þeirra í leikskólastarfi. Fjölskyldusvið Árborgar ásamt öllum leikskólum Árborgar tóku þátt í verkefninu.

Kennt var eitt kvöld í viku í sjö vikur, samtals 14 kennslustundir. Námskeiðið fór fram í leikskólanum Jötunheimum á Selfossi. Kennarar námskeiðsins voru Elín Anna Lárusdóttir og Margarita Hamatsu en þær eru leikskólakennarar með mikla reynslu og áhuga á fjölmenningu. Að kennslunni komu einnig Aneta Figlarska, kennsluráðgjafi í fjölmenningu, Anna Katarzyna Wozniczka, verkefnastjóri í málefnum flóttamanna og Guðný Ingibjörg Rúnarsdóttir, leikskólaráðgjafi.

Tilgangurinn var að auðvelda foreldrum að eiga í virkum samskiptum við leikskólann, hvort sem um dagleg eða formleg samskipti er að ræða s.s. í foreldraviðtölum og við notkun á Völu (samskiptaforriti leikskólanna). Einnig að kynna fyrir þeim þær frístundir sem í boði eru í sveitarfélaginu og fyrirkomulag skráninga því tengdu. Boðið var upp á fjölbreytta fræðslu, en notast var við vefsíðu Árborgar og Fjölmenningarsíðu Árborgar til að styðja foreldra í hagnýtri notkun þeirra og upplýsingaöflun. Hugmyndafræði menntunar fyrir alla og virks fjöltyngis voru útskýrð og rædd. Þátttakendur heimsóttu einnig bókasafn á Selfossi.

Í öllum kennslustundum var aðal áhersla lögð á íslenskan orðaforða. Börn þátttakenda fengu fjölbreytta málörvun á meðan á námskeiðinu stóð, í formi leikja og samræðna. Kennarar úr öllum leikskólum í Árborg tóku þátt í námskeiðinu og skiptust á að koma að kennslu barnanna. Safnað var upplýsingum um íslenskukunnáttu foreldra og viðhorf þeirra til námskeiðsins í upphafi og lok námskeiðsins, en stefnt er á að kynna verkefnið á fræðslufundum víða í skólasamfélaginu.

Reynslan sem við tökum með okkur eftir námskeiðið er að nemendahópurinn er fjölbreyttur hvað varðar bakgrunn og móðurmál. Þarfir nemenda eru ólíkar og margt í sambandi við t.d. skráningar í Völu, þátttöku foreldra í námi barna eða þjónustu á vegum sveitarfélagsins sem þeir þekktu ekki fyrir. Nemendur fengu gott rými til að tjá sig og spyrja spurninga og virtust öruggir. Þeir voru mjög áhugasamir um áframhaldandi nám og þá kom einnig fram hugmynd frá hópnum um að stofna fjölmenningarlegan saumaklúbb. Með verkefni sem þessu verður þörfin á að styðjast við túlk minni, samstarf á milli heimilis og skóla eflist og tengslanet fjölskyldunnar styrkist. Verkefnið efldi einnig skilning kennara á aðstæðum þessara fjölskyldna.

Elín Anna Lárusdóttir og Margarita Hamatsu,
kennarar námskeiðsins;
Aneta Figlarska, Anna Katarzyna Wozniczka og Guðný Ingibjörg Rúnarsdóttir, umsjónarmenn verkefnisins.

Nýjar fréttir