6.1 C
Selfoss

Almannavarnarmánuðurinn febrúar

Vinsælast

Samfélagsleg áföll hafa ýmsar birtingarmyndir og dynja á samfélögum ýmist fyrirvaralaust eða fyrirséð eins og við þekkjum innan ákveðinna svæða. Því er mikilvægt að vera eins vel undirbúin og mögulegt er og að viðbrögð séu sem skilvirkust.

Frá aldamótum hefur Sveitarfélagið Árborg tekist á við jarðskjálfta, bankahrun og Covid-19  faraldur. Allt eru þetta áföll sem hafa varað misjafnlega lengi, snert íbúa á ólíkan hátt en öll hafa þau haft áhrif á einstaklinga og fjölskyldur. Sveitarfélagið rekur margvíslega þjónustu fyrir íbúa og það skiptir miklu máli að undirbúningur sé vandaður og góður því áföllin geta dunið yfir með skömmum fyrirvara og haft víðtæk áhrif á þær þjónustustofnanir sem sveitarfélagið rekur.

Nýlegir atburðir í Grindavík minna okkur á hversu mikilvægt það er að innan sveitarfélaga séu til skýrar áætlanir og verkferlar og þurfa allir starfsmenn að vera meðvitaðir um sitt hlutverk til þess að viðbragð við áföllum verði sem skilvirkast.

Sveitarfélagið Árborg ákvað nú í fyrsta sinn að tileinka febrúarmánuð almannavörnum. Á forstöðumannafundi sem haldinn var í lok janúar kynnti Heiða Ösp Kristjánsdóttir sviðstjóri fjölskyldusviðs vinnu velferðarsviðs við gátlista og ferla auk þess sem Sólveig Þorvaldsdóttir fulltrúi Almannavarnaráðs Árborgar kynnti skipulag Árborgar vegna samfélagsröskunar.

Þá var mælst til þess að stofnanir og starfsmenn sveitarfélagsins gæfu sér tíma til að rýna í fyrirliggjandi gátlista og uppfæra upplýsingar eftir þörfum. Sumar stofnanir boðuðu til æfinga og boðið var upp á skyndihjálparnámskeið en þau er alltaf haldin reglulega í stofnunum sveitarfélagsins fyrir starfsfólk.

Almannavarnaráð og viðbragðsstjórn funduðu einnig í febrúar um fyrirhugaða æfingu „viðbúnaðarstig í Sveitarfélaginu Árborg“ sem stefnt er á að halda á vordögum.

Heimili í Sveitarfélaginu Árborg eru hvött til þess að útbúa viðbragðsáætlanir fyrir sitt heimili

Við gerð viðbragðsáætlunar heimilisins ræða fjölskyldumeðlimir um hugsanlegar hættur, hvaða úrræði eru til staðar og hvað skuli gera til þess að vera viðbúinn ef hætta steðjar að.  Þá er tilvalið að fara yfir viðlagakassa heimilisins eða útbúa slíkan ef hann er ekki þegar til á heimilinu.

Þann 11. febrúar ár hvert er 112 dagurinn og er almenn ánægja með það að febrúarmánuður verði tileinkaður almannavörnum og framvegis verði hann nýttur til að beina sjónum að samfélagslegum áföllum og fara yfir viðbragðsáætlanir í sveitarfélaginu.

Fjóla Steindóra Kristinsdóttir, bæjarstjóri Árborgar og
Heiða Ösp Kristjánsdóttir, sviðsstjóri fjölskyldusviðs
 Árborgar

Nýjar fréttir