7.3 C
Selfoss

Fermingarfjör í Skálholti

Vinsælast

Undanfarna mánudaga hafa fermingarbörn frá Suðurlandi tekið þátt í fermingarfjöri í Skálholti sem er fræðslu- og skemmtidagskrá fyrir börn sem stefna á fermingu í vor.

Pétur Ragnhildarson prestur í Breiðholtsprestakalli stýrir dagskránni sem er bæði fjölbreytt og skemmtileg. Eftir kynningu og morgunhressingu var hópnum skipt upp þar sem nokkrir fóru í hópefli, aðrir í söguskoðun um Skálholtsstað með Kristjáni Björnssyni vígslubiskup og enn aðrir fengu fermingarfræðslu.

Í hádeginu fengu allir pizzu á veitingastaðnum Hvönn en eftir hádegi var farið í ratleik um svæðið þar sem krakkarnir leystu ýmiskonar þrautir, eins og að semja TikTok dans, gefa presti fimmu eða fara með trúarjátninguna. Í lok dags fengu börnin svo að kynnast orgelinu í kirkjunni og velja sér óskalag við orgelið hjá Jóni Bjarnasyni organista. Að lokum var öllum safnað saman í kirkjunni þar sem haldin var falleg kyrrðarstund og sungnir sálmar. Fyrir brottför fengu börnin skúffuköku áður en þau héldu heim á leið eftir viðburðarríkan dag.

Markmið fermingarfjörsins er að kynna börnin fyrir Skálholtsstað sem helsta helgi– og sögustað landsins á skemmtilega hátt og leyfa þeim að kynnast staðnum á sínum forsendum. Ekki var annað hægt að sjá en að börnin skemmtu sér vel og fóru heim reynslunni ríkari eftir viðburðarríkan dag.

Mynd: Skálholt.
Mynd: Skálholt.
Mynd: Skálholt.

Nýjar fréttir