7.3 C
Selfoss

Stjörnublik

Vinsælast

Víð og létt jakkapeysa og jafnvel kápa ef hún er gerð síð. Prjónuð með garðaprjóni (slétt prjón fram og til baka) ofan frá og niður, fyrst berustykkið en þar er aukið út í löskum á fjórum stöðum. Síðan eru ermarnar prjónaðar og að lokum bolurinn. Kantur er heklaður í lokin.

Prjónað er með tveimur þráðum af Dolce mohairgarni og í berustykki er að auki þráður af pallíettugarni.

Stærðir: (S) M (L) XL

Áætlað magn af garni: Dolce frá Cewec, dk í hvorum lit: 4 (4)  (5) 6 dokkur, Paillette 1 dokka.

Langir hringprjónar no 8 og 10. Heklunál no 8

Prjónafesta 11 l = 10 sm.

Nælur til að geyma lykkjur. Prjónamerki. Tölur, en við eigum mikið úrval af þeim.

Fylgið upplýsingum um lykkjufjölda á hverju stigi í meðfylgjandi töflu. Hafið í huga að sídd á ermum og bol getur þurft að aðlaga vaxtarlagi og smekk og einnig að garðaprjón á það til að teygjast og því óhætt að teygja aðeins á því þegar mælt er.

Fyrsta lykkjan að framan er alltaf tekin fram af prjóninum óprjónuð eins og eigi að prjóna brugðið. Slétt lykkja myndast á kantinum.

Fyrsta lykkjan í ermunum er alltaf tekin fram af prjóninum óprjónuð eins og eigi að prjóna slétt. Brugðin lykkja myndast á kantinum.

Fitjið upp skv töflu á prjón no 8. Þegar búið er að prjóna eina umferð eftir uppfitið er sett prjónamerki til að vita að umferðir sem byrja þar eru á réttunni. Prjónið einn garð í viðbót (2 umferðir)

Berustykki

Skiptið yfir á prjón no 10

Prjónið lykkjufjöldann í boðungi skv töflu og setjið prjónamerki. Endurtakið fyrir ermarnar og bakhlutann og þá á að vera réttur lykkjufjöldi í hinum boðungnum. Prjónið til baka.

Útaukning í löskum er gerð þegar prjónað er á réttunni.

Prjónið þangað til ein lykkja er að merki og prjónið sl l undir bandið milli lykkjanna í næstu umf á undan, Prjónið tvær lykkjur og prjónið aftur sl l undir bandið eins og áður. Endurtakið við hin prjónamerkin. Prjónið til baka.

Endurtakið þessa útaukningu skv töflu.

Fyrir neðan berustykkið er pallíettuþráðurinn ekki prjónaður með.

Ermar

Vinstri ermi: Prjónið boðunginn að fyrsta prjónamerkinu og slítið frá. Setjið hjálparnælur eftir þörfum. Fitjið upp lykkjur skv töflu,  prjónið ermahlutann að næsta prjónamerki og fitjið aftur upp sama lykkjufjölda. Prónið til baka og setjið prjónamerki á kantinn í lokin til að vita hvar umferð á réttu byrjar. Prjónið einn garð og byrjið síðan á úrtöku í fjórðu hverri umferð með því að prjóna saman aðra og þriðju lykkjuna og aðra og þriðju síðustu lykkjurnar í lok umferðarinnar. Þegar búið er að fækka lykkjunum skv töflu er prjónað áfram þar til hæfilegri ermalengd er ná. Fellið laust af. Slítið frá nógu langan enda til að geta saumað ermina saman. Dragið endann í gegnum lykkjuna.

Hægri ermi: Prjónið fyrst lykkjurnar sem tilheyra bakhlutanum að næsta prjónamerki og slítið frá. Prjónið ermina eins og þá fyrri.

Bolur

Prjónið fyrst frá hægri erminni og út umferðina. Prjónið til baka og þegar kemur að handvegunum eru prjónaðar jafn margar nýjar lykkjur í þær sem voru fitjaðar upp á ermunum. Prjónið áfram þar til bolur er hæfilega síður og fellið laust af. Ekki slíta frá.

Frágangur

Notið lykkjuna þar sem úrtakan á bolnum endaði til að hekla upp hægri kantinn eina fastalykkju í hverja endalykkju. Þar sem á að hafa tölur er hekluð ein loftlykkja og hoppað yfir eina endalykkju. Efst við hálsmálið eru heklaðar 3 fastalykkjur í sama gat og síðan í aðra hverja lykkju að vinstri kanti. Þar eru heklaðar 3 fastlykkjur á hornið og síðan heklað niður eins og hinum megin. Slítið frá og dragið endann í gegnum lykkjuna.

Saumið saman ermarnar með því að þræða í gegnum kantlykkjurnar sitt á hvað. Teygið aðeins á erminni í leiðinni til að hafa slaka í saumnum.

Gangið frá öllum endum. Festið tölur.

Þvoið í volgu sápuvatni og vindið í þvottavél. Leggið til þerris.

Hönnun: Alda Sigurðardóttir.

Nýjar fréttir