0 C
Selfoss

Nettó opnar nýja verslun á Selfossi

Vinsælast

Fimmta græna verslun Nettó opnar við Eyrarveg á Selfossi í sumar. Verslunin verður um þúsund fermetrar og verður lögð áhersla á aðgengi að framúrskarandi vöruúrvali og góðum tilboðum fyrir viðskiptavini.

Samkaup hefur skrifað undir samning við Eik fasteignafélag um 1000 fermetra verslunarrými í miðbæ Selfoss, sem áður hýsti verslun Húsasmiðjunnar, og verða verslanir Nettó því tvær í sitthvorum enda bæjarins.

Áætlað er að Nettó við Eyrarveg opni á komandi sumarmánuðum og munu viðskiptavinir þar hafa aðgengi að sama framúrskarandi vöruúrvali og í öðrum verslunum Nettó. Gott aðgengi er við verslunina fyrir bæði akandi, gangandi vegfarendur eða aðra samgöngumáta en Strætó stoppar í göngufjarlægð frá versluninni.

Búðin verður fimmta græna verslun Nettó sem þýðir að allt kapp verði lagt á að lágmarka kolefnisspor verslunarinnar. Öll tæki verða keyrð á umhverfisvænum orkumiðli, LED lýsing verður í versluninni, allt sorp flokkað og allir fyrstar og megnið af kælum lokaðir.

Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri verslunar- og mannauðssviðs Samkaupa.

„Mikil og hröð uppbygging hefur átt sér stað á Selfossi síðustu ár og við höfum lengi horft til þess að auka við þjónustu íbúa á Selfossi með annarri Nettó verslun. Staðsetning verslunarinnar við Eyrarveg hentar vel þar sem bærinn hefur mikið stækkað í þá átt og hún verður einnig nær íbúum Stokkseyrar og Eyrarbakka. Það er því ljóst að þjónusta og fjölbreytni í verslun við íbúa svæðisins aukast til muna þegar við opnum nær sumri,“ segir Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri verslunar- og mannauðssviðs Samkaupa.

Nettó er í eigu Samkaupa og eru verslanir samstæðunnar orðnar rúmlega 60 talsins undir merkjum Nettó, Kjörbúðarinnar, Krambúðarinnar og Iceland. Nettó rekur núna 20 verslanir um allt land og þjónusta viðskiptavini sömuleiðis í gegnum netverslun sem býður upp á heimkeyrslu á Akureyri, höfuðborgarsvæðinu, Selfossi og í Reykjanesbæ.

Nýjar fréttir