-3.9 C
Selfoss

Mannát, hákarl og brennivín á bóndadaginn

Vinsælast

Öldungaráð Selfoss kom saman á Konungskaffi í miðbæ Selfoss á föstudagsmorgun í síðustu viku í tilefni bóndadagsins og buðu þeir með þeim Fjóu St. Kristinsdóttur, bæjarstjóra í Árborg og heiðursgesti, fyrrum sendiherra Íslands í Rússlandi, Hvergerðingnum Magnúsi Hannessyni, Bjarna Harðarsyni, einum helsta sagnamanni Sunnlendinga og sömuleiðis blaðamanni Dagskrárinnar.  Á boðstólnum voru flatkökur, kaffi, hákarl og brennivín, einkar vel við hæfi á þessum fyrsta degi þorra.

Guðni Ágústsson heldur tölu. Ljósmynd: DFS.is/HGL.

Guðni Ágústsson kynnti gestina og bauð velkomna, auk þess sem hann kynnti gestgjafana, þau Silju Hrund Einarsdóttur og Kristján Eldjárn, sem reka Konungskaffi og tóku vel á móti gestum sínum árla dags.

Mannát á íslandi

Bjarni Harðarson hélt tölu þar sem hann fræddi fróðleiksfúsa gestina um mannát, og vildi meina að hin margrómaða og skapstóra íþróttakona Flóamanna, Jóra, hafi verið einhverskonar frumkvöðull í því að taka á móti ferðafólki hérlendis, þó með þeim vafasömu afleiðingum að þeir ættu að hafa haft endastöð hjá Jóru, sem lagði sér þá til munns. Þessa iðju er talið að hún hafi tekið upp eftir að hún lauk við að éta lærið sem hún reif undan hrossinu, sem hún stökk síðan með yfir Ölfusá, líkt og þekkt er.

Ljósmynd: DFS.is/HGL.

Stytta af Jóru

Fjóla bæjarstjóri tók þá til máls og beindi orðum sínum að styttubandinu sem hafði veg og vanda að uppsetningu styttunnar af Agli Gr. Thorarensen við Brúartorg, og lagði það til að næsta stytta yrði af Jóru. Spruttu þá upp umræður um hvort hún yrði best geymd á sjálfum Jórukletti, úti í miðri Ölfusá, eða við árbakkann. Viðstaddir meðlimir Styttybandsins tóku vel í þessa tillögu og er því aldrei að vita nema við fáum að sjá hina einu sönnu Jóru með hestslærið á harðastökki við Ölfusá á komandi misserum.

Sigurður Sigurðsson dýralæknir kvað kvæði sem blaðamanni þótti vel við hæfi að hafa eftir, kvaðst hann þó ekki viss um hver uppruni þess væri, en vissulega er það vel við hæfi á éljasömum bóndadegi.

Sigurður Sigurðsson dýralæknir kveður kveði. Ljósmynd: DFS.is/HGL.

Nóttin hefur níðst á mér,
nú eru augun þrútin.
Snemma því á fætur fer
og flýti mér í kútinn.

 Við það augun verða hörð,
við það batnar manni strax.
Hvað er betra en bænagjörð,
brennivín að morgni dags.

Nýjar fréttir