14.5 C
Selfoss

Ný verkgreinastofa í ML

Vinsælast

Ný rúmgóð verkgreinastofa hefur verið tekin í notkun í Menntaskólanum að Laugarvatni í rýminu sem áður var kallað Brytaíbúð. Reyndar erum við að hefja notkun á ólíkum rýmum þessarar góðu stofu í þrepum; myndlistarkennsla hóf göngu sína í stofunni strax í byrjun janúar og svo bíðum við þess að allar græjur verði klárar og uppsettar á næstu vikum fyrir hljóðupptökur. Kennsla í hljóðupptökum fer svo af stað í kjölfarið.

Myndlistarkennsla hefur verið í höndum Heiðu Gehringer og hljóðupptökur og lagasmíðar hafa verið kenndar af Leó Inga Sigurðarsyni.

Við höfum lengi beðið eftir góðri aðstöðu til kennslu í list- og verkgreinum innan veggja skólans og nú loksins  hefur draumurinn ræst. Mikil vinna hefur verið lögð í þetta nýja rými, opna þurfti gólf í austurenda skólahússins til að nýta stiga sem liggur þar niður á neðstu hæð og er því innangengt í nýju stofuna af tungumálaganginum. Einnig var hjólastólaaðgengi tryggt að nýju stofunni.

Vonir standa svo til að hægt verði að koma upp góðri tækniaðstöðu í rýminu þar sem við getum unnið með þrvíddarprentun, vínilprentun eða annað það er hugurinn girnist. Fyrst og fremst vonum við að stofan muni reynast nemendum og kennurum vel í spennandi verkefnum framtíðarinnar.

Jóna Katrín skólameistari

Nýjar fréttir