8.9 C
Selfoss

Ánægjuleg byrjun á nýju ári

Vinsælast

Listasafn Árnesinga fagnar því á nýju ári að sýningin Kosmos/Kaos sem var í safninu fram að jólum var valin en af áhugaverðustu sýningum síðasta árs. Í yfirliti Dr. Hlyns Helgasonar listfræðings (í morgunblaðinu 3. jan) segir:  „Sýningin öll er eins og gerð til að undirbúa áhorfandann fyrir titilverk hennar, myndröðina Kosmos/Kaos frá 2021.  Þetta er röð fimm mynda þar sem ólíkar áherslur eru dregnar, áherslur sem magnast upp í samspili myndanna.  Hér beitir Ragnheiður kolunum af sérstakri snilld. Hún dregur fram sterka myndheima, sem hver ber sín eigin sérkenni en fellur jafnframt að heildinni. Hér eru dregnar skýrar línur og kámaðar; maður sér fyrir sér þá líkamlegu vinnu sem hefur farið í myndgerðina, hendur að stýra kolastrikunum, hendur að stroka út, nudda með allan líkamann undir í senn. Hér er um að ræða öfluga sýningu þar sem hægt er að fá yfirlit yfir feril afar merkilegs listamanns. Að auki eru á sýningunni ný verk þar sem Ragnheiður heldur áfram að þróa myndheim sinn.  Hér tekst henni, enn og aftur, að koma á óvart með nýjungum í tækni og krafmikilli persónulegri tjáningu.“

Hér má hlaða niður sýningarskránni ókeypis og einnig hlusta á listamannaspjall við Ragnheiði sem hélt upp á níræðisafmæli sitt á síðasta ári:

Kosmos / Kaos

Listasafn Árnesinga þakkar allar heimsóknirnar á síðasta ári og vonast til að sjá ykkur öll á árinu.  Fjórar nýjar einkasýningar verða opnaðar 2. mars og fer tími starfsmanna í viðhald á húsnæði og skiptingu sýninga og verður safnið lokað þangað til 2. mars.

Gleðilegt nýtt ár.

Listasafn Árnesinga

Nýjar fréttir