2.3 C
Selfoss

Byggja göngubrú yfir Ytri-Rangá

Vinsælast

Flekar sem mynda brúargólfið hífðir á stálknekta. Ljósmynd: Vegagerðin.

Brúarvinnuflokkur Vegagerðarinnar vinnur nú að gerð göngu- og hjólabrúar yfir Ytri-Rangá við Hellu. Göngubrúin verður fest utan á núverandi brú sem er 84 m löng og var byggð árið 1960. Öryggi gangandi og hjólandi eykst til muna en auk þess er göngubrúnni ætlað að tengja þorpið við nýtt hverfi sem á að rísa vestan megin við ána. Þetta segir í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Sigurjón Karlsson, yfirverkstjóri brúarvinnuflokksins segir verkið hafa tekið aðeins lengri tíma en ráð var gert fyrir. Verkið hófst í júní og var múrvinnu lokið í september. „Við gerðum við steypuskemmdir í bríkum, gerðum við steypu í gangbrautum sem liggja meðfram akbrautum brúarinnar, gerðum við skemmdir í landstöplum og steyptum upp hliðarvegg að austan undan straum,“ er haft eftir Sigurjóni.

Sigurjón Karlsson, yfirverkstjóri brúarvinnuflokksins. Ljósmynd: Vegagerðin.

Eftir að steypuviðgerðum lauk hefur verið unnið að uppsetningu göngubrúarinnar. Verkið snýst um að bora göt í bríkur og steypta bita svo hægt sé að festa við svokölluð stálknekti sem halda uppi nýja brúargólfinu. „Stálknektin koma tilbúin en við höfum smíðað gólfeiningarnar sjálfir og híft þau á knektin. Við þurftum að festa gólfið neðan frá og gerðum það með körfubíl.“ Sigurjón segir verklok aðeins óljós þar sem bið verður á að fá stálið í handriðin.

Tenging við göngu og hjólastíga

Sveitarfélagið Rangárþing ytra hefur í samvinnu við Landsnet og Vegagerðina unnið að undirbúningi hjóla- og göngustígs á milli Hellu og Hvolsvallar sem til skoðunar er að leggja á næstu árum. Vegagerðin styrkir sveitarfélagið í þeirri framkvæmd. Fyrsta skrefið er að gera stígatengingar við nýju göngubrúna og eru framkvæmdir á vegum sveitarfélagsins hafnar.

Nýjar fréttir