2.3 C
Selfoss

Lísa reddar jólunum

Vinsælast

Nemendur í íslensku á 1. þrepi í FSu fengu það verkefni í byrjun aðventu að semja og skrifa jólasögur. Á hverjum degi fram að jólum birtum við sýnishorn af sögum nemenda sem kennari þeirra Jón Özur Snorrason hefur yddað og ritstýrt og samið við fyrirsagnir. Viðfangsefnin eru af ýmsu tagi en ljóst er að jólahaldið og hátíðin, hefðir og pakkar og innihald jólanna skiptir ungt og upprennandi fólk ennþá miklu máli. Njótið lestursins og gleðileg jól.

Lísa er átta ára og býr með mömmu sinni sem er kokkur og pabba sem er mikilvægur læknir. Lísa býr á litlum og sætum sveitabæ á Suðurlandi. Hún er rosalega spennt fyrir jólunum enda hefur hún alltaf verið mikið jólabarn. Aðfangadagur rennur svo loksins upp. Fyrsta sem Lísa gerir um morguninn er að fá sér jólajógúrt með jarðaberjabragði og súkkulaðimolum. Á meðan Lísa situr við borðið sér hún snjóinn falla fyrir utan gluggann. Snjórinn er hvítur og fallegur og glitrar í sólinni. Mamma hennar er í eldhúsinu að undirbúa matinn en pabbi var kallaður í bæinn að sinna mikilvægri aðgerð. Svo fer að snjóa mikið. Og það snjóar meira. Mamma Lísu er orðin stressuð að pabbi hennar komist ekki heim fyrir kvöldmat. Lísa er orðin áhyggjufull og reynir að finna leið til að fá pabba heim og man þá að afi hennar á risajeppa á stórum dekkjum. Hún hringir í hann og hann fer strax af stað. Lísa og mamma hennar eru að leggja á borðið korteri fyrir jól þegar pabbi, afi og amma birtast í stofunni. Það er á sömu sekúndu og síðasti diskurinn er settur á borðið. Á móti þeim tekur yndislegur ilmur af jólamat. Lísa hleypur til pabba og knúsar hann. Þau setjast við borðið og fá sér jólamat. Það er mikill hlátur og gleði. Lísa opnar gjafirnar sínar og er ánægð að sjá að hún fékk það sem hún óskaði sér mest. En besta gjöfin er að fá pabba aftur heim og að þau geti öll glaðst saman og hlegið.

Ísabella Lára Walther

Nýjar fréttir