2.3 C
Selfoss

Myndi vísa geimskipum leiðina í Ginnungagap

Vinsælast

…segir lestrarhesturinn Grýla Jólasveinamóðir.

Grýla Jólasveinamóðir er fædd í eldgosi í ónefndu fjalli á 13. öld og hefur lifað allra kerlinga lengst. Ekki er hennar þó getið í heimsmetabók Guinnes. Nú býr hún í öðru fjalli nær höfuðstaðnum ásamt þrettán jólasveinum, Jóni á Völlunum og karlálftinni Leppalúða. Hún er sjaldséð nú á dögum og heldur sig til hlés. Fæst við grófar hannyrðir og hrærir í pottum en stikar stundum um hjarn á fullu tungli. Glímir við kvíða og lystarstol og reynir að halda jólasveinunum að vinnu. „Þetta eru óttaleg grey og þvælast oft fyrir mér” segir Grýla og sendir þá burt á myrkasta tímanum til að raska ró mannanna. Hún segist eiga sér draum um nýtt upphaf.

Hvaða bækur ertu að lesa núna?

Á aðventunni þegar ég sendi sveinana frá mér les ég mér til leiðinda. Ég er orðin úrhrak og óttalegt skar og sjónin farin að mestu. Krumpuð í skinninu og beinaber. Hjartaslögunum fækkar og ég hef misst tennur. Tungan nemur ekkert bragð. En ég heyri sérlega vel og þefskyn er ennþá gott. Mér hefur alltaf líkað vel við gamlar matreiðslubækur og svo er það Ókindarkvæðið sem ég læt kallinn minn farlama lesa fyrir mig á aðventunni. Það var hann Gísli heitinn Brynjólfsson sem skráði það eftir móður sinni. „Það var barn í dalnum sem datt ofaní gat en þar fyrir neðan ókindin sat.” Þetta kitlar mig ennþá ofurlítið. En Leppalúðaskortir gleraugu og því situr hann bara hjá mér rúmliggjandi og tuðar kvæðið eftir minni.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?

Það eru helst kvæði um leiðindi og annan heimsósóma. Mér leið betur þegar þeir kumpánar Skáld-Sveinn og Stefán Ólafsson í Vallanesi voru uppi. En það eru nokkrar aldir síðan. Stefán orti kvæði um mig og kann ég honum verstu þakkir fyrir þó ég sé ekki öllu ósammála því sem þar stendur. „Hún er svo ófríð að höfuð ber hún þrjú, þó er ekkert minna en á miðaldra kú.” Þetta getur þó varla talist rétt og heimildavinnu er greinilega áfátt því ég hef aðeins eitt höfuð í þrennu lagi. Fegurð er afstætt hugtak og snyrtiaðgerðum hef ég aldrei hrifist af.

Ertu alin upp við lestur bóka?

Ég átti ekki barnabækur í æsku enda voru engar til. Helst steintöflur, rúnasteinar og lúin skinnhandrit af kálfum og svo auðvitað guðsorðarit og annað skjall í þeim anda. Ég heillaðist af heiðninni og Völuspá fannst mér skemmtileg og frásagnirnar í Snorra Eddu af Óðni, Þór og Loka. Ég kann öll eddukvæðin utan að. Líkaði samt illa við styttingar í handritum. Hef alltaf verið lesblind enda annað augað út á kinn. Ég kunni best við Loka og illkvitnina og prettina í honum enda þekktumst við persónulega. Það er nefnilega svo að í mínum heimi er allt mögulegt.

Segðu aðeins frá lestrarvenjum þínum.

Þær eru helst út af liggjandi nú til dags. Einu sinni var ég yngri og uppistandandi og átti mér drauma. Þó ég sé fædd í eldgosi varð ég ekki strax að ófreskju. Ekkert frekar en hún Jóra vinkona mín í Jórukleif. Ég er nú bara alin upp við baðstofulíf til fjalla og djúpt ofan í hellum. Þá er lesið upphátt og verkin unnin á meðan. Við þurfum auðvitað að komast af eins og mannfólkið á láglendinu. Ég sný oft sólarhringnum við og þoli illa sólarljós og blómskrúð. Mér líður betur í skugganum með draugum og tröllum og öðrum forynjum. Mér leiðast álfar og huldufólk.

Áttu þér uppáhalds höfunda eða uppáhalds verk?

Ég þekki ekki þessa nútímahöfunda og hef svo sem ekkert af þeim að segja. Veit þó af þeim því ég sé í gegnum tímann – bæði aftur og fram. Grýlukvæði heilla mig þó alltaf og jólasveinakvæði og tröllasögur og drauga. Enda þekki ég mörg tröll og drauga og kann vel við þann félagssskap. Hér eru engar útgefnar bækur. Menn bara mæta í baðstofuhellinn og lesa upp. Við Jóra í Jórukleif lesum oft saman bækur um mannfræði og hlægjum svo allt notrar hér í kring.

Hefur bóklestur einhvern tíma rænt þig svefni?

Það er illt að vaka í svefni. Ætli ég viti það nokkuð því ég móki nú til dags oft milli svefns og vöku. Það er helst tuðið í Leppalúða sem veldur mér svefnleysi eða hrópin í Jóni á Völlunum. Bóklestur gerir mig ekki vansvefta. Það er frekar Elli kerling sem gerir það og enginn nær að fella ekki einu sinni Þór Óðinsson.

En að lokum Grýla, hvernig bækur myndir þú skrifa sem rithöfundur?

Nýtt Grýlukvæði enda þau gömlu orðin úrelt. Ég myndi fara með mig út í geim og hætta þessum barnaskap um sjálfa mig. Ég myndi ferðast á hesti Sleipnis eða í valshami Freyju eðajafnvel í skóm Loka. Ég myndi gera mig að stjörnu á himni sem bæri af öðrum stjörnum sakirfegurðar og vísa geimskipum leiðina í Ginnungagap.

Nýjar fréttir