7.3 C
Selfoss

Úr svartri auðn í stærsta bú landsins

Vinsælast

„Ég kom í Gunnarsholt þegar ég var rétt rúmlega eins árs gamall, síðan hef ég verið viðloðandi staðinn, síðan 1947, meira og minna allt mitt líf nema þegar ég var í framhaldsskóla og háskólum, annars hef ég bara verið í Gunnarsholti þannig að ég leit þannig á að það væri enginn betur til þess fær en ég að segja frá sögu staðarins.“ Segir Sveinn Runólfsson í samtali við Dagskrána, en Sveinn bjó í Gunnarsholti í hartnær 70 ár, þar af var hann landgræðslustjóri í 44. Hann er í þann mund að leggja lokahönd á bók sína Saga Gunnarsholts á Rangárvöllum í máli og myndum þar sem hann fer yfir merkilega sögu Gunnarsholts.

„Í Gunnarsholti er geysilega mikil og merk saga og löng og ég byrja á að segja lítillega frá henni við landnám og svo fjalla ég svolítið um eyðingarsöguna, þar til að Gunnarsholt fer endanlega í eyði 1925, þá var öll jörðin og allar aðliggjandi jarðir orðnar svartur sandur. Aðalhluti bókarinnar fjallar um hvernig þetta land var endurreist og hvernig þessi miklu landgæði sem þarna voru, hvernig þau voru endurheimt,“ segir Sveinn um bókina.

Gunnarsholt. Ljósmynd: Mats Wibe Lund.

Hann segist ekki í vafa um að allt land Gunnarsholts hafi verið kjarri vaxið í upphafi. „Sem dæmi um það má telja að, fyrir utan þau merki sem hafa fundist í jörð og jarðvegi sem ekki er fokinn á haf út, á öllum þessum jörðum á þessu svæði á Rangárvöllunum, þar voru bæirnir byggðir uppi á hólum og framan í brúnum. Menn vildu sjá yfir landið, þeir sáu ekkert fyrir skóginum, skógarnir voru brenndir og höggnir í eldivið og til þess að þreyja fram lífið þangað til ekkert kjarr var eftir og þegar kjarrið var horfið þá hvarf skjöldurinn sem verndaði þennan eldfjallajarðveg og viðkvæma gróður. Þegar þessi skjöldur var horfinn þá byrjaði hamslaus uppblástur og þá eyddist þetta smátt og smátt, allur gróður og þarna var búfé beitt allan ársins hring.“

„Þýðir ekkert að kenna Heklu einni um þetta“

„Það var nánast ekkert land eftir til þess að heyja og þess vegna fór þetta svona endalega í þessa miklu eyðimörk. Það er ekki nokkur vafi á því að Rangárvellir og Rangárvallarhreppur er verst leikna sveitarfélag landsins af þessum náttúruhamförum í formi uppblásturs og gróðureyðingar. Það var ekki Heklu gömlu einni um að kenna nema óbeint því það er alveg ljóst að hún var búin að vera að gjósa í mörg þúsund ár áður en landnámið hófst og það er ekki fyrr en áhrif búsetunnar og rányrkju fer að gæta verulega sem að uppblásturinn hefst. Vissulega eru óbein áhrif í því að jarðvegurinn þarna er mjög fokgjarn út af ösku og vikri en það þýðir ekkert að kenna bara Heklu um þetta. Við getum kennt sjálfum okkur og vanþekkingu um þetta en fólkið varð að þreyja fram lífið og nýta allt það sem landið gaf og rúmlega það,“ bætir Sveinn við.

Sveinn segir að fyrsta ráðið í baráttunni við að stöðva eyðinguna hafi verið að girða og friða verstu sandfokssvæðin fyrir beit. „Fjárveitingar voru af afskaplega skornum skammti og það voru lítil svæði sem voru tekin fyrir hverju sinni en það skipti sköpum og þar sem verstu sandflákarnir voru, þar voru hlaðnir grjótgarðar sem ég lýsi í bókinni, þvert á helstu vindáttina, norðaustanáttina, til að stöðva sandskrið og gefa melgresinu grið sem var sáð meðfram þessum görðum.“

Girða, hlaða og sá

Þá segir Sveinn þessa þrjá þætti hafa skipt sköpum á fyrstu 40 árunum: „Girða og friða fyrir beit, hlaða grjótgarða og sá melfræi. Það er engin jurt, önnur en melgresið, sem við þekkjum í dag sem þrífst og líður vel í miklu sandfoki. Til dæmis þegar ráðist var til atlögu af fullum krafti á Landeyjasandi út af Landeyjarhöfn var ekkert nema melgresið sem varð að grípa til og Landgræðslan þekkti vel til að takast á við að framleiða fræ af því.“

Holdanaut. Ljósmynd frá Gunnarsholti 1955.

„Þessi bók lýsir því hvernig þessari sandauðn var breytt, á nokkrum áratugum, í það að bera langstærsta bú sem nokkurn tímann hefur verið til á landinu. Þarna voru á vetrarfóðrum um 1650 fjár, nærri 700 höfuð af holdanautum, 1-200 hross og óheyrilega mikill heyskapur og stór graslögglaverksmiðja, þannig það er ekkert bú sem hefur komist í hálfkvisti við Gunnarsholtsbúið að stærð og umfangi. Allt á landi sem var svört eyðimörk,“ segir Sveinn að lokum.

Um 600 ljósmyndir prýða bókina og hana er hægt að panta í forsölu fram að árámótum á hagstæðu verði hjá Sveini í síma 893 0830 eða sveinnrun@gmail.com

(Holdanaut)

(Landgræðslan)

Nýjar fréttir