4.5 C
Selfoss

Kótelettan aflaði 2,8 milljóna fyrir krabbameinssjúk börn

Vinsælast

Alls söfnuðust 2,8 milljónir króna á Kótelettunni á Selfossi í sumar sem renna til Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna (SKB). Þetta er hæsta upphæð sem safnast hefur á Kótelettunni fyrir SKB á þeim 8 árum sem kótelettusalan hefur verið í gangi á hátíðinni.

Helmingurinn af upphæðinni eða 1,4 milljónir er afrakstur kótelettusölu og Einar Björnsson, skipuleggjandi og forsvarsmaður Kótelettunnar, afhenti SKB síðan sömu upphæð í vikunni að viðstöddum fulltrúum styrktaraðila en Einar ákvað á síðasta ári að hátíðin myndi tvöfalda þá upphæð sem kæmi út úr styrktarlettusölunni svokölluðu.

„Hátíðin hefur fyrir löngu fest sig í sessi sem einn af skemmtilegri fjáröflunarviðburðum félagsins en á hverju ári fáum við líflega og öfluga einstaklinga til að grilla með okkur kjötið sem samstarfsaðilarnir sjá okkur fyrir. Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna þakkar kærlega öllum sem komu að styrktarsölunni á Kótelettunni á Selfossi síðasta sumar,“sagði Gréta Ingþórsdóttir, framkvæmdastjóri SKB, við afhendinguna.

Viðstaddir afhendinguna voru fulltrúar frá Kjarnafæði, Stjörnugrís, Ali og Kjötbankanum en fyrirtækin hafa ásamt SS og Mömmumat á Selfossi lagt kóteletturnar til. Einnig hefur Matborðið gefið SKB kartöflusalat sem selt hefur verið með kótelettunum.

Nýjar fréttir