-3.9 C
Selfoss

Hljóðið í stofunni

Vinsælast

Nemendur í íslensku á 1. þrepi í FSu fengu það verkefni í byrjun aðventu að semja og skrifa jólasögur. Á hverjum degi fram að jólum birtum við sýnishorn af sögum nemenda sem kennari þeirra Jón Özur Snorrason hefur yddað og ritstýrt og samið við fyrirsagnir. Viðfangsefnin eru af ýmsu tagi en ljóst er að jólahaldið og hátíðin, hefðir og pakkar og innihald jólanna skiptir ungt og upprennandi fólk ennþá miklu máli. Njótið lestursins og gleðilega komandi hátíð.

Það var dimmt og drungalegt á Þorláksmessukvöldi þegar Stefán lagðist til hvílu. Hann leit að svefnherbergishurðinni sem var opin í hálfa gátt. Honum fannst hann heyra eitthvað eins og fótatak í stofunni. Stefán lá stjarfur í rúminu af hræðslu. Klukkan var hálf þrjú að nóttu og hann hlaut að vera að dreyma. Hann leit yfir til Katrínar, unnustu sinnar sem að lá sofandi við hlið hans. Þetta hlaut bara að vera ímyndun. Hann fór fram úr en enginn nema hundurinn var frammi. Hann lokaði dyrunum og lagðist aftur upp í og reyndi að leggja aftur augun. Þá heyrir hann hundinn urra og einhver tekur í húninn og juðar honum upp og niður. Ofsahræðsla greip um sig hjá Stefáni. Katrín vaknar við lætin í húninum og stekkur fram úr. Síðan hættir þetta allt í einu. Stefán opnar hurðina löturhægt. Enginn hinum megin. Þau horfa hvort á annað. Hundurinn sperrir eyrun og það er ljóst að hann sér eitthvað sem að þau sjá ekki. Þau leggjast aftur upp í rúm og reyna að sofna. Fyrir utan húsið sjá þau ekki þegar rauðklæddur maður tiplar á tánum í nýföllnum snjónum.

Adam Smári Sigurðsson

Nýjar fréttir