4.5 C
Selfoss

Guðmunda vann fullnaðarsigur á MAST

Vinsælast

Þann 28. mars sl. kærði Guðmunda Tyrfingsdóttir í Lækjartúni á Hellu til Matvælaráðuneytisins, ákvörðun Matvælastofnunar (MAST) sem tekin var þann 4. janúar sl., um að vörslusvipta hana búfénaði sínum og færa hann til slátrunar. Krafðist Guðmunda þess að ákvörðun stofnunarinnar yrði felld úr gildi og þess að viðurkennt yrði að förgun á öllu búfé hennar hefði verið ólögmæt stjórnvaldsaðgerð.

Guðmunda hafði stundað búskap í marga áratugi, lengst af sem kúabóndi en síðustu ár með nokkur hross, sauðfé og hænur, eftir að hún hætti mjólkurframleiðslu. Um miðjan desember 2022 varð hún fyrir slysi og dvaldist í kjölfar þess á hjúkrunar- og dvalarheimili fram til 22. janúar 2023, þegar hún flutti aftur á dýralaust heimili sitt að Lækjartúni. Guðmunda býr ein á bænum og var í ársbyrjun 2022 með fjörutíu suðafjár, tíu nautgripi og sex hross auk nokkurra hænsnfugla.

Afleysing til 2. janúar

MAST barst ábending símleiðis þann 21. desember 2022 um að Guðmunda væri komin á dvalarheimili og yrði mögulega ekki hæf til að sinna skepnunum að nýju þegar og ef hún sneri aftur. Í framhaldi af því hafði MAST samband við sveitarstjóra Ásahrepps sem upplýsti að Guðmunda hefði útvegað aðila til að leysa sig af fram til 2. janúar 2023 og því ljóst að um tímabundna lausn væri að ræða.

108 skepnum slátrað

Þann 4. janúar fundaði MAST vegna stöðunnar á bænum. Á fundinum var upplýst að sá sem sinnt hafði búskapnum fyrir Guðmundu hafði ekki lengur tök á því. Það var því mat stofnunarinnar að ekki væru fyrir hendi aðilar sem gætu tryggt velferð dýranna. Niðurstaða fundarins varð sú að í ljósi þess að enginn væri að sinna dýrunum á meðan Guðmunda var á dvalarheimilinu og að henni hafði ekki tekist að tilnefna aðila til að taka að sér skyldur samkvæmt lögum um velferð dýra, að vörslusvipting á grundvelli laga um velferð dýra væri óhjákvæmileg. Var Guðmundu tilkynnt um ákvörðunina samdægurs. Á grundvelli þessarar ákvörðunar MAST var tíu nautgripum slátrað 5. janúar, 47 fjár aflífaðar og fargað 6. janúar, um 45 hænum fargað 9. janúar og sex hrossum slátrað 11. janúar 2023.

Búfénaðurinn í góðu ástandi

Guðmunda taldi meðal annars að ákvörðunin væri í andstöðu við önnur lagaákvæði er snúa að velferð dýra og telur ágreiningslaust að allur búfénaður hennar hafi verið í góðu standi fyrir vörslusviptinguna. Að auki taldi hún að aðgerðir MAST hafi ekki verið gerðar í samráði við eða samkvæmt fyrirmælum lögreglu eins og lagaákvæðið kveður á um. Þá hafi hin kærða ákvörðun verið mjög íþyngjandi fyrir hana, bæði fjárhags- og tilfinningalega, án þess að henni hafi verið veittur andmælaréttur. Eins telur hún MAST hafa borið að beita vægari aðgerðum en gert var í ljósi góðs ástands búfénaðarins. Að lokum sagði Guðmunda að ákvörðunin væri haldin svo miklum göllum að hún skyldi sæta ógildingu.

MAST mótmælti fyrrgreindum athugasemdum og mat það svo að ekki væru til aðilar sem tryggt gætu velferð dýranna í Lækjartúni á meðan Guðmunda dvaldist á sjúkrastofnun í kjölfar slyssins. Taldi stofnunin að ekki hafi verið gerðar óréttmætar og óhóflegar kröfur til þeirra sem vildu hjálpa til við búskapinn og því hafi verið óhjákvæmilegt að grípa til fyrrgreindra aðgerða í þágu dýravelferðar. Þá áréttar stofnunin að þrátt fyrir að vörslusviptingin hafi verið ákveðin sama dag og Guðmunda hafði frest til þess að tilnefna mann í sinn stað, hafi sú ákvörðun átt sér talsverðan aðdraganda. Taldi MAST það nokkuð ljóst þann 4. janúar að engin lausn væri í augnsýn og sagði að Guðmundu hafi verið veittur frestur frá 22. desember til áramóta til að tilnefna nýjan aðila til afleysinga en ekki haft erindi sem erfiði.

MAST byggir vörslusviptingu í málinu á grundvelli laga sem segja að stofnuninni sé heimilt að taka dýr úr vörslu umráðamanns þegar úrbætur þola enga bið eða aflífa dýr sem hafa orðið fyrir varanlegum skaða sökum vanfóðrunar, harðýðgi, slysa eða slæms aðbúnaðar. Það skuli vera gert í samráði við eða samkvæmt fyrirmælum lögreglu.

Í niðurstöðu ráðuneytisins segir að í gögnum málsins hafi ekki fundist staðfesting þess að búfé á bænum hafi orðið fyrir fyrrgreindum afleiðingum. Í bréfi MAST til lögmanns Guðmundu kemur enn fremur fram að ástand dýranna hafi verið í lagi þegar ákvörðun um vörslusviptingu og síðan aflífun hafi verið tekin en mat það svo að stefnt hafi í óefni vegna skorts á umsjónarmanni. Metur ráðuneytið það svo að gögn málsins beri ekki með sér að ástand dýranna hafi verið með þeim hætti að nauðsynlegt hafi verið að grípa til svo skjótra og varanlegra aðgerða án þess að gefa Guðmundu færi á að að koma á framfæri athugasemdum við málsmeðferðina eða ráðstöfunina. Í ljósi þess, meðal annars, var úrskurður MAST um vörslusviptingu á búfé Guðmundu Tyrfingsdóttur felldur úr gildi og því ólögmætur.

Nýjar fréttir