8.9 C
Selfoss

Léttasteikt rjúpa og Ritz kex kaka

Vinsælast

Arnþór Tryggvason er sunnlenski matgæðingur vikunnar.

Ég þakka Ragnari Serríós vini mínum fyrir áskorunina. Orðið alltof langt síðan við fórum í okkar árlegu bústaðarferðir á Apavatni í desember þar sem við bökuðum að lágmarki 10 sortir og slúðruðum í pottinum. Ég skorast ekki undan áskoruninni um að koma með góða villibráðaruppskrift og ætla að vera með uppskrift að rjúpu sem ég elda alltaf um jólin og læt svo fylgja með í eftirrétt Ritz kex köku með salthnetum sem er mjög skemmtileg og góð kaka.

Léttsteikt rjúpa með villibráðarsósu

  • Bringur af rjúpu (Bestar ef skotnar á suðvesturhorninu)
  • Salt og pipar
  • Olía
  • Villbráðarsoð
  • 2 dl rjómi
  • 1 msk gráðaostur
  • 2 msk rifsberjahlaup
  • Sósujafnari

Kryddum bringur með salti og pipar og steikjum upp úr olíu á pönnu í 1 mín á hvora hlið svo bringurnar verði fallega brúnar. Færum bringurnar í eldfast mót og steikjum í 180°C heitum ofni í 3 mín. Tökum þá kjötið úr ofninum og látum standa í 3 mín. Endurtökum þetta þangað til bringurnar hafa verið í ofninum í 9 mín samtals. Með sósuna látum við allt saman í pott og látum suðuna koma upp og þykkjum með sósujafnara. Smökkum til með salti og pipar. 

Berum svo fram með brúnuðum karftöflum og Waldorfssalati.

Ritz kex kaka með salthnetum

  • 3 stór egg
  • 220 g sykur
  • 1 tsk lyftiduft
  • 1 tsk vanilludropar
  • 100 g ritz kex
  • 150 g salthnetum

Við byrjum á því að skilja eggin og setjum eggjahvítur í skál og þeytum þar til byrjar að freyða og bætum þá sykri og vanilludropum út í og stífþeytum. Söxum salthnetur, myljum ritz kex og blöndum varlega saman við með sleikju. Smyrjum form með smjöri og setjum blandið í formið. Bökum við 180°C og blástur í 25 mín. Látum kólna meðan við gerum kremið. Þeytum eggjarauður og flórsykur þar til það verður létt og fluffy. Bræðum við lágan hita smjör og bráðnuðu Dumle súkkulaði, blöndum í mjórri bunu út í eggjahræruna. Setjum kremið á kökuna þegar hún hefur kólnað. Njótið.

 


Ég ætla svo að skora á Orra Jónsson frá Lundi í Lundareykjadal fyrrum samherja minn í úr FSu körfuknattleiksliðinu. Hann er oft kallaður „Fljúgandi ísskápurinn“ svo nú kemur í ljós hvort það tengist hæfileikum hans í eldhúsinu eða leikstíl í körfubolta. 

Nýjar fréttir