1.7 C
Selfoss

Reynir Pétur kominn heim

Vinsælast

Á miðvikudag, á 75 ára afmælisdegi Reynis Péturs Steinunnarsonar íbúa á Sólheimum, var þjóðþekkt stytta af honum afhent Sólheimum til eignar.

Guðni Th. Jóhannesson forseti afhenti styttuna að viðstöddu fullu listhúsi á Grænu könnunni, kaffihúsinu á Sólheimum þar sem styttan er staðsett og öllum velkomið að koma og taka mynd af sér með henni.

Fjölmargar ræður voru haldnar, Sigurjón Örn Þórsson stjórnarformaður Sólheima bauð gesti velkomna og Guðni Th. tók svo við og hélt kraftmikla tölu og hrósaði Reyni Pétri fyrir að vera góð fyrirmynd og hans atbeina fyrir fatlað fólk og samfélagsins alls. Þá var hlaðið í fjórfalt húrra og styttan afhjúpuð.

Guðni Th. Jóhannesson. Ljósmynd: Aðsend.

Freyr Friðriksson, eigandi KAPP ehf tók svo til máls og afhenti styttuna formlega en hún var áður í eigu KAPP. Kór Sólheima söng afmælissönginn og nokkur lög til viðbótar við góðar undirtektir.

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra tók svo til máls og nefndi m.a. að enginn getur allt en allir geta eitthvað og Sólheimar séu gott dæmi um það. Hún hrósaði Reyni Pétri fyrir þá góðu og jákvæðu straum sem hann sendi þjóðinni í Íslandsgöngunni 1985 og hafi gert allar götu síðan með jákvæðninni og einglægni sinni.

Ómar Ragnarsson fór svo yfir sögu Íslandsgöngunnar sem hann fjallaði svo vel um á sínum tíma á RÚV og gerði þar með Reyni Pétur landsfrægan. Þar nefndi hann m.a. að Lionsklúbburinn Ægir sem hefur verið styrktaraðili Sólheima nánast frá upphafi hafi ásamt öðrum stuðlað að því að Reynir Pétur fór í gönguna.

Sólheimakórinn. Ljósmynd: Aðsend.

Halldór Júlíusson sem var framkvæmdastjóri Sólheima þegar Íslandsgangan var sagði einnig frá aðdraganda göngunnar og þeim miklu breytingum sem urðu hjá heimilisfólki og viðhorfi til fatlaðs fólks eftir gönguna. Reynir Pétur var mikill göngumaður fyrir og gekk Sólheimahringin, 24 km, nánast á hverjum degi en til öryggis fór hann í ítarlega læknisskoðun gangandi, sem hann stóðst með glans. Þess má geta að hluti af tilgangi göngunnar var að safna fyrir íþróttaleikhúsi á Sólheimum og það tókst.

Reynir Pétur sjálfur tók síðan til máls og hélt flotta ræður þar sem hann koma m.a. fram að tilgangur ferðarinnar hafi verið að opna umræðu um viðhorf til fatlaðs fólks, að fá sálarfrið og sjá landið sitt, að vera fyrstur til að ganga þjóðveg 1 og síðan að safna fyrir íþróttaleikhúsi. Hjá Reyni stóð uppúr á Íslandsgönginni allt fólkið sem labbaði með honum í nánast hverjum einasta bæ sem hann labbaði gegnum. Í lokin tók svo Reynir Pétur lagið á munnhörpunni eins og honum er einum lagið. Að ræðuhöldum loknum var boðið til veislu að hætti Reynis Péturs en hann hefur sérstakt dálæti á upprúlluðum pönnukökum, kleinum og hangikjöts flatkökum.

Hópmynd við styttuna. Ljósmynd: Aðsend.

Styttan af Reyni Pétri

Íslandsgangan 1985 hafði mikil áhrif á þjóðina og landsmenn muna enn vel eftir henni. Ríkey Ingimundardóttir listamaður hreifst með og gerði styttuna af Reyni þar sem hann situr á hraunsillu og glottir út í heiminn. Styttan er órúlega lík Reyni og var mál manna á athöfninni að hún væri eineggja tvíburi Reynis Péturs. Þess má geta að Ríkey gerði aðra fræga styttu, Leirfinn.

Styttan var svo til sýnis á Sólheimum í einhvern tíma en var síðan seld.

Mikið fjölmiðlafár varð síðan 30 árum eftir gönguna þegar Reynir Pétur auglýst eftir sjálfum sér og allir stærstu fjölmiðlar landsins fjölluðu um málið í nokkra daga undir fyrirsögninni Reynir Pétur er týndur. Það var síðan nokkrum dögum síðar að umfjöllunin náði á Grænlandsmið þar sem Jónas Hallur Finnbogason togarasjómaður var að veiðum. Hann hafði keypt Reyni Pétur mörgum árum áður og var styttan í öruggum höndum hjá honum.

Fyrir rúmu ári síðan eignast KAPP ehf styttuna í þeim tilgangi að afhenda hana Sólheimum til varanlegrar eignar og helst að hún yrði á áberandi stað í Listhúsi Grænu Könnunnar þar sem gestir geti séð hana og tekið mynd af sér með henni.

Nýjar fréttir