1.7 C
Selfoss

Hvernig er best að tala við börn og unglinga um málþroskaröskun DLD

Vinsælast

Dagur málþroskaröskunar DLD (e. Developmental Language Disorder) verður haldinn hátíðlegur um allan heim föstudaginn 20. október 2023. Málþroskaröskun felur í sér meðfædda taugaröskun sem hefur áhrif á máltjáningu og/eða málskilning af óþekktum orsökum og er greind af talmeinafræðingum. Sjá nánar á Vísindavefnum Hvað er málþroskaröskun DLD?

Það er mikilvægt fyrir barnið að fá að vita að það sé greint með málþroskaröskun DLD og að hún sé hluti af þeim áskorunum sem það glímir við í námi og í samskiptum við aðra. Þegar barn veit um þær áskoranir og þekkir kosti sína og annmarka, öðlast það betri skilning á sjálfu sér. Rannsóknir sýna að barni með námsvanda vegnar betur ef það hefur góða vitund um eigin færni.

Mælt er með að tala um málþroskaröskun DLD við barnið um leið og það hefur þroska til. Algengt er að foreldrar hika við að segja barni sínu frá greiningu á DLD og eru jafnvel óöruggir með hvernig þeir eigi að ræða um DLD við barnið. Með því að kynna DLD fyrir barni þegar það er ungt verður hún sjálfsagður hluti af reynsluheimi þess. Barn frá aldrinum 6 – 7 ára getur oft skilið þegar rætt er um áskoranir þess og leiðir til lausna. Þá er skynsamlegt að tala um DLD á hversdagslegum nótum og sýna barninu fram á að DLD er ekki slæm heldur er hún hluti af lífinu sem það þarf að takast á við, rétt eins og að bursta tennurnar. Mikilvægt er einnig að hjálpa barninu að koma auga á styrkleika sína og ekki er ráðlagt að útskýra DLD í þaula í fyrstu samræðum við barnið.

Í fyrsta skipti sem DLD er kynnt fyrir barni er gott að nota dæmi sem það hefur upplifað sjálft. Beinið athygli að upplifuninni og segið barninu að til er nafn yfir þessa upplifun. Með því móti setjum við heiti á upplifunina en ekki „stimpil“ á barnið sjálft. Segjum sem svo að barn sem greint hefur verið með DLD eigi oft erfitt með að finna réttu orðin yfir það sem það talar um. Til dæmis að kvöld eitt eigi barnið í erfiðleikum með að finna rétt orð yfir það sem það óskar sér í morgunmat og að lokum segist það langa í vöfflur. Daginn eftir standa dýrindis vöfflur á morgunverðarborðinu en barnið hágrætur því það ruglaðist á orðunum og ætlaði að segja að það langaði að fá pönnukökur í morgunverð. Síðar þegar allir hafa jafnað sig eftir þennan misskilning er hægt að rifja upp atvikið og setja heiti á upplifunina. Samræðurnar gætu hafist á þessa leið:

Manstu í gær þegar þú áttir í erfiðleikum með að finna rétta orðið á því sem þig langaði að fá í morgunmat og sagðir að þú vildir fá vöfflur? Þetta kemur fyrir hjá sumum og ég held að þetta komi stundum fyrir hjá þér er það ekki? Það er til heiti yfir þetta. Þetta heitir málþroskaröskun eða DLD og merkir að stundum eigi fólk erfitt með að finna réttu orðin. Margir eru með málþroskaröskun DLD og það getur stundum verið pirrandi en það er allt í lagi. Við munum hjálpast að við að takast á við það. Það þýðir að við þurfum að finna leiðir til að verða betri í því að finna réttu orðin. Það er nefnilega alltaf hægt að æfa sig og verða betri í því sem maður tekur sér fyrir hendur.

Annað dæmi væri ef barnið á í erfiðleikum með að skilja fyrirmæli. Barnið fær löng fyrirmæli með flóknum sjaldgæfum orðum og meðtekur aðeins hluta af þeim eða misskilur fyrirmælin. Í stað þess að bregðast illa við að barnið hafi ekki farið eftir fyrirmælum er hægt að ræða við barnið á þessa leið:

Það er í lagi að biðja einhvern um að endurtaka sig og það er í lagi að biðja um að fá tíma til að átta sig á því sem aðrir eru að segja eða að fá nánari útskýringar. Stundum þurfum við þess öll hvort sem við erum með DLD eða ekki. Allstaðar eru tækifæri til að læra og þroskast, það þarf bara að æfa sig í því að verða betri og það getur tekið tíma.“

Stuðningur heima fyrir er mjög mikilvægur. Látið barnið finna að þið metið það að verðleikum eins og það er. Hlustaðu á barnið og gefðu því tíma til að tjá sig. Sýnið fram á að það sé eðlilegt að fá aðstoð við að muna, skilja og tjá sig. Sem dæmi væri að ef foreldri nefnir rangt nafn þegar það kallar á systkini barnsins í kvöldmatinn. Þegar foreldrið áttar sig á að það notaði rangt nafn talar það um mismælið á eðlilegan hátt og veitir barninu dæmi að viðbrögðum við mismæli sem gæti til dæmis verið á þessa leið „Siggi maturinn er tilbúinn! Æ, ég sagði Siggi en ég ætlaði að kalla á Kalla. Ég ruglaðist alveg á nöfnunum ykkar. Ég reyni aftur. Kalli maturinn er tilbúinn!“ Mismæli er ekkert til að skammast sín fyrir og margir sem ekki eru með DLD mismæla sig. Með því að tala opið um atvikið á jákvæðan hátt sýnir foreldrið barninu hvernig það geti brugðist við þeim upplifunum sem það glímir sjálft við.

Það getur verið að barnið spyrji nánar út í málþroskaröskunina DLD, eða jafnvel ekki, og það er í góðu lagi. Mikilvægast er að foreldrar og barn eru byrjuð að tala saman um DLD út frá upplifunum barnsins og smám saman lærir það inn á hvað DLD er. Mikilvægt er jafnframt að hvetja barnið til að nýta vel alla styrkleika sína og að nota ekki DLD sem afsökun fyrir að geta ekki eitthvað, heldur að vera óhrætt við biðja um aðstoð, eins og útskýringu á orðum, endurtekningu á fyrirmælum og þess háttar. Með góðum stuðningi og hjálp aðstandenda nýtir barnið sér þær aðferðir sem það þarf á að halda til að komast áfram í lífinu. Það er því mikilvægt að tala opið um málþroskaröskun DLD og láta þá aðila sem koma að barninu vita af mállegum áskorum þess t.d. kennara, leiðbeinendur, hópstjóra, íþróttaþjálfara, fjölskyldumeðlimi (frændfólk, ömmur og afa), foreldra vina sem barnið umgengst og alla mikilvæga einstaklinga sem eiga í samskiptum við barnið.

Það getur einnig verið gagnlegt fyrir foreldra barna með DLD að ræða við aðra foreldra í sömu sporum og hvet ég ykkur til að kynna ykkur starfsemi Máleflis https://www.malefli.is sem eru hagsmunasamtök í þágu barna og unglinga með tal- og málþroskaröskun. Málefli hefur meðal annars að markmiði að vera vettvangur þar sem foreldrar barna geta rætt saman, borið saman bækur sínar og fengið stuðning hvert af öðru. Samtökin standa fyrir ýmiskonar samverustundum á formi spilastunda, kaffihúsahittinga eða leikhúsferða þar sem möguleiki er fyrir börn, unglinga og foreldra til að hittast og fá jafningjastuðning.

Margrét Guðmundsdóttir,
talmeinafræðingur hjá Skólaþjónustu Árborgar

*Byggt að hluta til úr fræðsluritinu „DLD Developmental Language Disorder – A Guide for parents and families“ eftir Jeanne Tighe, 2022.

Nýjar fréttir