10 C
Selfoss

Baráttufundur um laun fyrir lífi ungra bænda

Vinsælast

Samtök ungra bænda blása til baráttufundar fyrir lífi sínu og íslenskra sveita í Salnum, Kópavogi, nk. fimmtudag, 26. október á milli kl 13-16. Á fundinum leggja átta ungir bændur orð í belg ásamt þremur gestafyrirlesurum. Fundinum verður streymt og eru nánari upplýsingar um hann í auglýsingu í Dagskrá vikunnar. Vonast er eftir nærveru og þátttöku þingmanna og ráðherra sem öllum verður boðið á svið til þátttöku í umræðum ásamt erindisflytjendum og gestum í sal.

Steinþór Logi Arnarsson, formaður Samtaka ungra bænda, segist vongóður um að fundurinn verði bæði skemmtilegur og baráttuglaður. Markmiðið sé að troðfylla Salinn og halda þannig fund að stjórnvöld opni augun, leggi við hlustir og skilji í senn þann fælingarmátt sem hamlar allri nýliðun í bændastétt og þau miklu tækifæri sem blasa við með nýjum kröfum á heimsmarkaði.

Formaður Samtaka ungra bænda, Steinþór Logi Arnarsson, sagðist aðpurður sannfærður um að fundurinn yrði hinn líflegsti. Vildi hann sérstaklega minna á að honum verður streymt á fésbókarsíðunni ungir bændur. Hinum sem skryppu í Kópavoginn yrði að minnsta kosti boðið upp á kaffi og kleinur!

Þau sem flytja erindi á fundinum eru í stafrófsröð:

Axel Sæland, formaður garðyrkjudeildar BÍ, garðyrkju- og blómabóndi á Espiflöt, Reykholti
Ingibjörg Davíðsdóttir, sendiherra og aflvaki íslensks fæðuklasa
Ísak Jökulsson, í stjórn SUB, bóndi á Ósabakka, Skeiða- og Gnúpverjahreppi
Jón Helgi Helgason, kartöflubóndi á Þórustöðum, Eyjafirði,
Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í landbúnaði
Ragnar Árnason, hagfræðingur
Sigríður Ólafsdóttir, bóndi og ráðunautur, Víðidalstungu, V-Húnavatnssýslu
Stefán Geirsson, bóndi í Gerðum, Flóahreppi
Steinþór Logi Arnarsson, formaður Samtaka ungra bænda, bóndi í Stórholti, Dölum
Þórólfur Ómar Óskarsson, kúabóndi í Grænuhlíð, Eyjafirði
Þuríður Lillý Sigurðardóttir, sauðfjárbóndi á Sléttu, Reyðarfirði

Fundarstjóri verður Bjarni Rúnarsson, bóndi á Reykjum, Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

Nýjar fréttir