4.5 C
Selfoss

Okkar orlof í takt við tímann

Vinsælast

Dagana 24. til 28. september s.l. var Húsmæðraorlof Árnes- og Rangárvallasýslu haldið á Hótel Örk í Hveragerði. 91 húsmæður voru skráðar og 88 mættu til leiks sem er metþátttaka. Frá 1976 hefur húsmæðraorlof okkar verið með þessu sniði, aldrei farið í utanlandsferðir heldur alltaf samvera ýmist í skólum eða hótelum hér í heimabyggðum, að undanskildum þremur skiptum þar sem dvalið var í Borgarnesi og Vestmannaeyjum.

Í Árnessýslu og Rangárvallasýslu er starfandi 3ja kvenna orlofsnefnd í hvorri sýslu, í þær er kosið af Sambandi sunnlenskra kvenna og vinna þær saman að skipulagi orlofsins. Á þessu starfsári eru nefndarkonur Rosemarie Þorleifsdóttir, Erla Þorsteinsdóttir, Þórdís Þórðardóttir, Þórunn Ragnarsdóttir, Arndís Fannberg og Rósalind Ragnarsdóttir.

Nú síðustu ár höfum við verið á Hótel Örk þar sem aðstaðan er til fyrirmyndar – gott aðgengi, lyfta, margir salir til afnota, sundlaug, gufubað og heitir pottar. Á hótelið þakkir skildar fyrir gott samstarf og góðan viðurgjörning. Ekki spillir fyrir að Hveragerði er fallegur bær til gönguferða og öll nauðsynleg þjónusta þar til staðar.

Ljósmynd: Aðsend.

Í orlofinu er skipulögð dagkrá alla dagana, stólajóga á morgnana og bingó, fyrirlestur eða annað skemmtilegt á kvöldin. Þess utan geta konurnar slakað á eða notið samverunnar í prjónaskap, spjalli og söng. Einn dag er alltaf farið í dagsferð með rútu og áhugaverðir staðir skoðaðir. Þetta árið var ferðinni heitið til Þorlákshafnar þar sem íbúðir aldraðra, Nían, voru heimsóttar og vöktu mikla aðdáun, Strandarkirkja var skoðuð og áfram lá leiðin til Grindavíkur þar sem við snæddum hádegisverð og fengum síðan leiðsögn um bæinn og út á Garðskaga. Loks var ekið um Hellisheiði aftur til Hveragerðis. Eitt kvöldið kom næringarfræðingur og flutti mjög fróðlegt og skemmtilegt erindi um nýjar áherslur í matarræði eldri borgara, annað kvöld var tískusýning þar sem orlofskonur sýndu föt frá Lindinni á Selfossi. Lokakvöldið var að venju hátíðarkvöldverður, Hlynur Theódórsson og Sæbjörg dóttir hans úr Rangárþingi komu og sungu fyrir okkur nokkur lög og stóðu einnig fyrir fjöldasöng sem dró margar konur út á dansgólfið.

Meðalaldur kvennanna var 80 ár og þess má til gamans geta að ein þeirra, 86 ára, var að gista á hóteli í fyrsta skipti á ævinni. Eins og áður var almenn ánægja meðal kvennanna með orlofið og er það von okkar og trú að konur fái að njóta þess áfram um ókomin ár.

F.h. Orlofsnefnda Árnes- og Rangárvallasýslu,
Arndís Fannberg ritari

Nýjar fréttir