7.3 C
Selfoss

Tvær nýjar á Klaustri

Vinsælast

Á dögunum var lesið upp úr tveimur nýjum bókum á veitingahúsinu Kjarr á Kirkjubæjarklaustri.

Áslaug Ólafsdóttir. Ljósmynd: Aðsend.

Áslaug Ólafsdóttir las upp úr bókinni Hlutskipti sem Jóna Ingibjörg Jónsdóttir og Jón Hjartarson skrifuðu. Jón lést í febrúar 2023 en það var viðeigandi að lesa upp úr bók hans á Kirkjubæjarklaustri því þar bjuggu þau Áslaug í mörg ár, hann var skólastjóri og hún kennari. Bókin hefst á Selfossi en sögusviðið teygir sig allt norður á Gjögur. Söguefnið er átakanleg en mjög áhugavert. Áslaug fékk margar spurningar og greinilegt að efnið snerti alla í salnum. Það kom því ekki að óvart hversu góðan dóm bókin fékk í Kiljunni 4. október.

Lilja Magnúsdóttir. Ljósmynd: Aðsend.

Lilja Magnúsdóttir, sem var kennari og kynningarfulltrúi á Kirkjubæjarklaustri, las svo upp úr skáldsögu sem ber titilinn Friðarsafnið. Í sögunni segir af manni á flótta og stúlkum sem eiga í höggi við strákahóp sem beitir þær yfirgangi sem erfitt er að berjast á móti. Nafn bókarinnar kemur til af því að önnur aðalpersónan, Rakel, hefur stofnað Friðarsafn í Reykjanesbæ. Þetta er spennandi og áleitin skáldsaga sem tekur á margvíslegum birtingarmyndum ofbeldis á raunsæjan og áhrifaríkan hátt. Bókin hentar öllum en ekki síst ungu fólki.

Ljósmynd: Aðsend.

Það var vel mætt og stundin notaleg. Veitingarnar voru glæsilegar hnallþórur og kaffi í boði eigenda Kjarr, þeirra Vigdísar, Lárusar Hilmars og Baldvins Lárs. Kjarr er nú komið í vetrarfrí en opnar aftur næsta vor.

Daginn eftir var svo farið á Hjúkrunarheimilið Klausturhóla með tertur og upplestur.

Nýjar fréttir