12.3 C
Selfoss

Útisvæði Öldunnar á Hvolsvelli opnar

Vinsælast

Leikskólinn Aldan á Hvolsvelli hóf starfsemi þann 8 ágúst s.l. og var formlega vígður þann 25. ágúst að viðstöddu fjölmenni en þá voru tæplega tvö ár frá að fyrstu skóflustungurnar voru teknar af nemendum leikskólans. Á þeim tíma hafði leikskólastarf í sveitarfélaginu verið á nokkrum stöðum í einhvern tíma vegna myglu í þáverandi húsnæði og því mikil þörf á nýrri byggingu.

Leikskólinn Aldan er átta deilda leikskóli með möguleika á að stækka upp í tíu deildir og getur skólinn tekið á móti um 180 börnum. Það var Páll V. Bjarnason sem hannaði leikskólann ásamt Ólöfu Pálsdóttur. Starfsfólk skólans voru einnig ráðgefandi þegar kom að hönnun leikskólans að miklu leiti og hafði það mjög mikið að segja um lokaútkomuna.

Framúrskarandi leiksvæði

Leiksvæði leikskólans var að hluta til tilbúið við vígslu Öldunar en mánudaginn 25. september gátu börnin loks nýtt allt leiksvæðið og er óhætt að segja að börnin hafi verið í skýjunum með þessa nýju viðbót enda möguleikar til sköpunar og leiks óteljandi. Sérstaklega þegar tekið er tillit til sköpunarkrafts og orku sem ungdómurinn býr yfir.

Réttin. Ljósmynd: Stefán Friðrik.

Afmarkað ungbarnasvæði er á leiksvæðinu búið fjölbreyttum leiktækjum með tilskyldum fallvörnum. Innan svæðisins eiga allir að geta svalað grunnleikþörfum sínum og fundið fyrir öryggi í leiðinni. Þegar þroski barna eykst ásamt kjarki og hreyfigetu bíður ytri lóðin eftir þeim með fjölbreyttum áskorunum.

Ljósmynd: Stefán Friðrik.

Á ytra svæðinu opnast náttúrlegri rými þar sem gróður er notaður til rýmis- og skjólmyndunar. Svæðið býr yfir möguleikum fyrir fjölbreyttari leik þar sem hugsunin er að börn og aðrir gestir geti skapað sinn eigin leik.

Menning, landbúnaður og ræktun innblástur

Rangárþing Eystra er mikið landbúnaðarsvæði og óhjákvæmilegt að stór hluti barnanna tengi sterk við sveitarstörf og ræktun. Þessari staðreynd tóku hönnuðurnir fagnandi sem endurspeglast í mótun landsins og val á búnaði.

Ljósmynd: Stefán Friðrik.

„Náttúrulegur efniviður og frjáls leikur með hugmyndaflug barnanna að vopni var áherslupunktur leikskólastarfsmanna sem var ánægulegt að vinna með og útfæra. Náttúruleikurinn er byggður upp með efnivið úr nærliggjandi skógrækt sem og tilfallandi grjóti af svæðinu. Útkoman er kofa og stiklusvæði upp við drullusvæði með rennandi vatni. Malarstígur hlykkjast umhverfis svæðið og snertir á fjölbreyttum gróðursvæðum og misopnum rýmum sem gefa möguleika á stórum hópleikjum jafnt sem smærri kyrrðarsvæðum og snertingu við náttúrulegri efni. Hliðarspor frá stígnum liggja einnig að svæði innblásið af íslenskum fjárréttum og sleðabrekkunni sem gefur einnig gott útsýni.“ Segja þau Aðalheiður E. Kristjánsdóttir og Jóhann Pétursson landslagsarkitektar hjá Landmótun en hönnun útisvæðisins var í þeirra höndum ásamt Huldu Davíðsdóttur og Írisi Reynisdóttur.

Ljósmynd: Stefán Friðrik.

Hugmyndir starfsfólks leikskólans voru hafðar til hliðsjónar við alla hönnun, enda þótti hönnunarhópnum mikilvægt að fá skoðanir þeirra í ljós og fylgja því eftir.

Til viðbótar við þetta aðalleiksvæði leikskólans þá eru tvö minni garðrými staðsett sitthvoru megin við bygginguna. Þessum svæðum er ætlað að vera útisvæði fyrir hópastarf leikskólans þar sem listasmiðjur, matjurtaræktun og útikennsla í minni hópum getur farið fram.

Ljósmynd: Stefán Friðrik.

Aðalheiður og Jóhann segja að stærð lóðarinnar gerði þeim kleyft að bjóða upp á svo fjölbreytt og náttúrulegt svæði þar sem börn og kennarar geta upplifað fjölbreytileika í náttúru, rýmum og upplifun. Að því sögðu þá var líka hugað að mögulegri framtíðar stækkun lóðarinnar til vesturs. Þangað var fluttur töluverður fjöldi trjáplantna sem gætu nýst ef lóðin yrði stækkuð til vesturs eða nýst sem útikennslusvæði fyrir skóla og leikskóla.

Allir lögðust á eitt

Anton Kári Halldórsson sveitarstjóri Rangárþings Eystra er að vonum ánægður með útkomu útisvæðisins og leikskólans alls. „Framkvæmdir gengu virkilega vel og voru að mestu innan tíma og fjár ramma. Undanfarin tvö ár hafa ekki verið auðveld fyrir börn, foreldra og starfsmenn leikskólans. En vegna myglu þá þurfti að bregðast við og skipta deildum upp á nokkur húsnæði í þorpinu. Engu að síður þá gekk þetta allt saman ótrúlega vel. Það er einvörðungu vegna þess að allir lögðust á eitt. Útisvæðið er algjörlega framúrskarandi að mínu viti og talar mjög vel í þær áherslur sem við hjá sveitarfélaginu erum með þegar kemur að börnunum okkar. Skapandi og frjótt samfélag“.

Nýjar fréttir