10 C
Selfoss

Vestfirskur sálfræðingur hefur störf á Selfossi

Vinsælast

Silja Runólfsdóttir hefur tekið til starfa undir Domus Mentis Geðheilsustöð (dmg.is) á Selfossi. Hún hefur aðsetur í Fjölheimum, Tryggvagötu 13, þrjá daga í viku; þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag. „Þar tek ég á móti ungmennum og fullorðnum, sem og íþróttafólki á öllum aldri í sálfræðimeðferð,“ segir Silja í samtali við Dagskrána.

Silja er fædd og uppalin í Bolungarvík og segist stolt vera Vestfirðingur í húð og hár. Hún fluttist þó búferlum frá paradís Vestfjarða til að nema við Menntaskólann að Laugarvatni, þaðan sem hún útskrifaðist árið 2010. „Hvers vegna ML, í rúmlega 500 km fjarlægð frá heimahögum er erfitt að segja, en ég sé svo sannarlega ekki eftir því, enda hefur það fært mér ómetanlegar minningar, vináttu og í seinni tíð óvænt endurkynni og eiginmann,“ segir Silja og brosir sínu breiðasta.

Eftir menntaskóla fór Silja í Háskólann í Reykjavík þar sem hún náði sér í BS-gráðu í sálfræði. „Eftir útskrift fór ég að vinna við sérkennslu í leikskóla á meðan ég skoðaði næstu skref. Samhliða vinnunni sótti ég diplómu í afbrotafræði sem leiddi til þess að ég kláraði MA-gráðu í félagsfræði, þar sem ég gerði rannsókn á viðhorfum til meiðsla og þess að spila meiddur í fótbolta á Íslandi. Ég kem sjálf úr fótboltaumhverfinu og mér hefur alltaf þótt íþróttir áhugavert umhverfi. Árið 2019 útskrifaðist ég svo úr MSc námi í klínískri sálfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Ég flutti svo í Hveragerði árið 2019, með manninum mínum og dóttur í kjölfar þess að maðurinn minn, uppsveitamaðurinn Andri Helgason, opnaði sjúkraþjálfunarstofu þar í bæ,“ bætir Silja við, en síðan þá hafa þau eignast tvö börn til viðbótar og komið sér sérlega vel fyrir í Hveragerði.

Frá útskrift starfaði Silja á Heilbrigðisstofnun Suðurlands í geðheilsuteymi fullorðinna, sálfræðiþjónustu barna, mæðravernd, sinnti áfallamálum og sinnti um tíma sálfræðiþjónustu við Fjölbrautaskóla Suðurlands á vegum heilsugæslunnar. „Samhliða því vann ég einnig á Domus Mentis Geðheilsustöð og hef haldið fyrirlestra í tengslum við íþróttir, hópnámskeið og sinnt meðferð við kvíða, þunglyndi, lágu sjálfsmati og áfallastreituröskun. Um þessar mundir er ég að auki að sérhæfa mig í hugrænni atferlismeðferð.“

Ég er ánægð með að bætast í þessa flottu flóru sálfræðinga sem starfa nú á Suðurlandi og að fá að leggja mitt á vogarskálarnar til að mæta aukinni þörf þessarar þjónustu á svæðinu, ég tek glöð á móti ykkur í Fjölheimum,“ segir Silja að lokum. Tímapantanir fara fram í gegnum dmg.is eða í síma 581-1009.

Nýjar fréttir