11.1 C
Selfoss

Fjórtán tonna hertrukkur stórskemmdi vegslóða í Þjórsárveri

Vinsælast

Pete Ruppert, þýskur ferðamaður, deildi á dögunum myndböndum á YouTube rás sinni, sem hefur um 550.000 fylgjendur, þar sem hann ók fjórtán tonna Mercedez Zetros hertrukki á vegslóða fyrir létta bíla í Tjarnarveri í Þjórsárverum og pikkfesti hann, með tilheyrandi skemmdum á jarðveginum. RÚV greindi fyrst frá.

Pete hefur ferðast víða um landið ásamt félaga sínum. Í samtali RÚV við Jón G. Snæland, félaga í Ferðafrelsi sem hefur komið að kortlagningu slóða á hálendinu ásamt Landmælingum, skipulagt jeppaferðir í áratugi og skrifað um það bækur, segir Jón málið alvarlegt, jeppi ferðamannsins hafi sokkið víða og fest sig. „Hann er fyrst og fremst að skoða Ísland bara á öðrum forsendum en við viljum að hann geri. Hann er náttúrulega að keyra svolítið víða utanvegar, svona svolítið ruddalega á mjög þungum bíl,“ segir Jón. Þá segir hann standa til að láta Umhverfisstofnun vita en samkvæmt heimildum RÚV hafði lögreglan á Suðurlandi ekki frétt af svaðilför þýsku ferðalanganna fyrir gærdaginn.

Sveinbjörn Halldórsson, formaður Ferðaklúbbsins 4×4 og Samút, samtaka útivistarfélaga hefur gefið út yfirlýsingu vegna aðfaranna þar sem hann segir félaga Ferðaklúbbsins harmi slegna yfir því framferði sem birtist í myndböndum Pete.

„Ljóst er að þarna eru unnar umtalsverðar skemmdir á náttúru okkar, slóðum og vegum á hálendinu. Myndböndin bera með sér að þarna er engin virðing borin fyrir því hve náttúran er viðkvæm og böðlast í gegnum slóða og troðninga auk þess sem vísvitandi er ekið utan slóða. Aðilar sem aka um á 14 tonna trukkum þurfa að sýna sérstaka aðgát og geta í raun ekki keyrt hvar sem er, enda undirlag víða mjúkt á hálendinu. Við höfum haft samband við Umhverfisráðuneytið og munum hafa samband við Umhverfisstofnun til að óska eftir að málið verði skoðað og vonandi gefinn út kæra. Svona viljum við ekki láta viðgangast hér á landi og alls ekki auglýsa landið á þennan máta. Vonandi bregðast yfirvöld við þessu til að fólk sjái að við líðum ekki svona traðk á náttúrunni.“

Skjáskot:YouTube/Pete Ruppert UNIVERSE.

Þrátt fyrir augljós skemmdarverk er Pete ekki feiminn við að birta myndböndin sem sýna hann tæta upp og stórskemma landið með þunga trukkinum og þeim tækjum og tólum sem til þurfti til að losa trukkinn, en það tók Pete og ferðafélaga hans þrjá daga að ná honum áfram veginn hjá Tjarnarveri. Í umræðu sem á sér stað á Facebook síðu Ferðafrelsis setur einn ummælenda inn skjáskot af svari Petes við gagnrýni þar sem hann kennir lélegum merkingum Íslendinga um að jeppar fari um eða tapi áttum. Hann bætir við að hann hafi ekki í hyggju á að heimsækja landið aftur, enda okri það á ferðamönnum, veiti lélega þjónustu og veiði hvali, sem hann segir skömm gagnvart sköpun guðs.

Nýjar fréttir